Sebastian Vettel var í þessu að vinna ráspól kappakstursins í Singapúr á Ferraribíl sínum eftir magnaðan tímahring í lokalotu tímatökunnar. Sagði hann árangurinn framar sínum björtustu vonum en allt fram í loka atlöguna réðu ökumenn Red Bull ferðinni.
Vettel átti erfitt með að halda aftur af sér á innhring, svo ánægður var hann með sinn þriðja ráspól á árinu. Hrópaði hann ákaft af fögnuði og sagði léttinn mikinn því fyrir tímatökuna hefði hann verið afar vantrúaður á að ná pólnum, sem er sá 49. sem Vettel vinnur á ferlinum.
Léttir hans var og skiljanlegur vegna spennunnar sem ríkir í keppninni um heimsmeistaratitil ökumanna milli þeirra Lewis Hamiltons. Mercedesþórinn varð aðeins í fimmta sæti og stendur Vettel því vel að vígi til að endurheimta forystuna í titilslagnum sem hann hafði haldið alla vertíðina fram í síðasta mót, í Monza. Milli þeirra á ráslínunni á morgun verða Max Verstappen og Daniel Ricciardo á Red Bull og Kimi Räikkönen á Ferrari.
Vettel ók hraðast á 1:39,491 mínútum en Verstappen varð annar með 1:39,814 og Ricciardo þriðji á 1:39,840 mín. Þrátt fyrir mistök í báðum tímahringjum lokalotunnar hreppti Räikkönen fjórða sætið á 1:40,069 mín.
Hamilton var 57 þúsundustu úr sekúndu lengur með hringinn en Ferrariþórinn á 1:40,126 mín. ValtteriBottas hjá Mercedes varð sjötti en rúmlega 0,6 sekúndum lengur í förum en liðsfélagi hans.
Í sætum átta til tíu urðu - í þessari röð - Fernando Alonso og Stoffel Vandoorne á McLaren og Carlos Sainz á Toro Rosso.