„Dekkin voru dauð“

Liðsmaður Ferrari liggur á jörðinni eftir misheppnuð dekkjaskipti Kimi Räikkönen.
Liðsmaður Ferrari liggur á jörðinni eftir misheppnuð dekkjaskipti Kimi Räikkönen. AFP

Sebastian  Vettel á Ferrari var í þessu að vinna kappaksturinn í Barein eftir afar tvísýna taktíska keppni við Valtteri Bottas á Mercedes. Ferrariliðið fagnaði hóflega vegna slyss við dekkjaskipti á bíl Kimi Räikkönen.

Vettel fagnaði hins vegar í talstöðinni enda verulega létt þar sem hann tók aðeins eitt dekkjastopp í stað tveggja vegna slyssins. „Dekkin voru dauð“ síðustu 10 hringina, alveg gagnslaus, handónýt,“ sagði Vettel. Var þetta 49. mótssigur hans í formúlu-1 og 200. kappakstur.

Räikkönen hætti keppni við atvikið enda dekkjaskiptin ekki að fullu um garð gengin þegar hann fékk grænt ljós á að halda af stað. Einkar ótrúleg mistök hjá jafn reynslumiklu liði og Ferrari.

Lewis Hamilton þrætti seinni helming kappakstursins við stjórnendur sína um herfræði sem gekk út á að vinna kappaksturinn á mun betri dekkjum að því tilskyldu að öryggisbíll kæmi út í brautina undir lokin. Á það veðjaði Mercedes, en tapaði því veðmáli. Hafnaði Hamilton í þriðja sæti en meðan Räikkönen  var í brautinni var hann vel á undan Hamilton.

Í fjórða sæti var svo maður dagsins, nýliðinn Pierre Gasly á Toro Rosso. Er það besti árangur Honda efteir að japanski bílsmiðurinn kom aftur til leiks í formúlu-1 sem vélaframleiðandi.

Kevin Magnussen á Haas varð fimmti, Nico Hülkenberg á Renault sjötti, Fernando Alonso á McLaren sjöunda og liðsfélagi hans Stoffel Vandorme áttundi. Marcus Ericsson á Sauber varð níundi og tíunda og síðasta stigasætinu náði Esteban Ocon á Force India.

Stóru tíðindin í byrjun kappakstursins var brottfall beggja bíla Red Bull. Voru þeir horfnir úr brautinni eftir fjóra hringi af 57.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert