Æðislegasta og mest spennandi kappakstri ársins í formúlu-1 var að ljúka í þessu í Austin í Texas. Kimi Räikkönen á Ferrari vann sinn fyrsta sigur í fimm ár og hélt forystunni þótt Max Verstappen á Red Bull og Lewis Hamilton á Mercedes önduðu niður hálsmál hans síðustu 20 hringina af 56.
Kimi vann síðast kappakstur í formúlunni í fyrsta móti vertíðarinnar 2013, í Melbourne. Og meira en tvö ár eru frá því hann vann sæti í ræsingu kappaksturs. Enda á það batt hann í dag er hann notaði gripmeiri dekk til að leggja til atlögu við Hamilton sem reyndi vonlítilli baráttu að hindra skotferð Räikkönen og varð að sjá á eftir honum fram úr sér.
Með úrslitunum frestast uppgjörið um heimsmeistaratitil ökumanna alla vega um viku, eða fram í kappaksturinn í Mexíkó næsta sunnudag. Hamilton missti titilinn úr höndum sér er honum urðu á akstursmistök tveimur hringjum frá marki er hann freistaði þess að komast fram úr Verstappen. Er frammistaða belgíska Hollendingins afar athyglisverð því hann hóf keppni í 18. sæti.
Hafnaði Hamilton þriðji en keppinautur hans um titilinn, Sebastian Vettel, gerði enn eitt glappaskotið á fyrsta hring er hann skall á bíl Daniels Ricciardo svo að báðir snarsnerust. Féll Vettel niður í síðasta sæti en með ákafri sókn og vel útfærðri herfræði á seinni hluta kappakstursins vann hann sig fram úr Valtteri Bottas á Mercedes, sem hafði það hlutverk eitt að verja Hamilton með því að halda Vettel fyrir aftan sig.
Það gekk eins og í 10-15 hringi en tveimur hringjum frá marki komst Vettel nógu nálægt til að vinna sig fram úr inn í beygju.
Titillinn ræðst í Mexíkó
Ljóst er að titill ökumanna gengur út í Mexíkó á sunnudaginn kemur. Hamilton er með 346 stig og Vettel 276. Munurinn því 70 stig og í pottinum mest 75 stig. Þarf Hamilton að fara stigalaus frá mótinu en Vettel með sigur til að keppnin dragist fram í mótin í Sao Paulo og Abu Dhabi.
Í þriðja sæti er Räikkönen með 221 stig, fjórði Bottas með 217 og fimmti Verstappen með 191.
Í keppni liðanna er Mercedes með 563 stig, Ferrari 497, Red Bull 337 og Renault með 106, en önnur lið minna.