Fyrsti sigur Kimi í fimm ár

Æðis­leg­asta og mest spenn­andi kapp­akstri árs­ins í formúlu-1 var að ljúka í þessu í Aust­in í Texas. Kimi Räikkön­en á Ferr­ari vann sinn fyrsta sig­ur í fimm ár og hélt for­yst­unni þótt Max Verstapp­en á Red Bull og Lew­is Hamilt­on á Mercedes önduðu niður háls­mál hans síðustu 20 hring­ina af 56.

Kimi vann síðast kapp­akst­ur í formúl­unni í fyrsta móti vertíðar­inn­ar 2013, í Mel­bour­ne. Og meira en tvö ár eru frá því hann vann sæti í ræs­ingu kapp­akst­urs. Enda á það batt hann í dag er hann notaði grip­meiri dekk til að leggja til at­lögu við Hamilt­on sem reyndi von­lít­illi bar­áttu að hindra skot­ferð Räikkön­en og varð að sjá á eft­ir hon­um fram úr sér.

Með úr­slit­un­um frest­ast upp­gjörið um heims­meist­ara­titil öku­manna alla vega um viku, eða fram í kapp­akst­ur­inn í Mexí­kó næsta sunnu­dag. Hamilt­on missti titil­inn úr hönd­um sér er hon­um urðu á akst­ursmis­tök tveim­ur hringj­um frá marki er hann freistaði þess að kom­ast fram úr Verstapp­en. Er frammistaða belg­íska Hol­lend­ing­ins afar at­hygl­is­verð því  hann hóf keppni í 18. sæti.

Hafnaði Hamilt­on þriðji en keppi­naut­ur hans um titil­inn, Sebastian Vettel, gerði enn eitt glappa­skotið á fyrsta hring er hann skall á bíl Daniels Ricciar­do svo að báðir snar­sner­ust. Féll Vettel niður í síðasta sæti en með ákafri sókn og vel út­færðri herfræði á seinni hluta kapp­akst­urs­ins vann hann sig fram úr Valtteri Bottas á Mercedes, sem hafði það hlut­verk eitt að verja Hamilt­on með því að halda Vettel fyr­ir aft­an sig.

Það gekk eins og í 10-15 hringi en tveim­ur hringj­um frá marki komst Vettel nógu ná­lægt til að vinna sig fram úr inn í beygju.

Tit­ill­inn ræðst í Mexí­kó

Ljóst er að tit­ill öku­manna geng­ur út í Mexí­kó á sunnu­dag­inn kem­ur. Hamilt­on er með 346 stig og Vettel 276. Mun­ur­inn því 70 stig og í pott­in­um mest 75 stig. Þarf Hamilt­on að fara stiga­laus frá mót­inu en Vettel með sig­ur til að keppn­in drag­ist fram í mót­in í Sao Pau­lo og Abu Dhabi.

Í þriðja sæti er Räikkön­en með 221 stig, fjórði Bottas með 217 og fimmti Verstapp­en með 191.

Í keppni liðanna er Mercedes með 563 stig, Ferr­ari 497, Red Bull 337 og Renault með 106, en önn­ur lið minna.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert