Norðurlandamót drengjalandsliða, skipuðum leikmönnum 16 ára og yngri, í knattspyrnu hefst á Norðurlandi á þriðjudag og lýkur á laugardag eftir viku. Átta þjóðir senda lið til þátttöku, sem hljómar ef til vill undarlega, en auk Norðurlandaþjóða taka Englendingar og Írar einnig þátt í keppninni. Síðarnefndu þjóðinni var boðið til keppni af mótshöldurum, en Englendingar eiga fast sæti í keppninni. Hinar þjóðirnar eru, auk gestgjafanna, Færeyjar, Danmörk, Noregur, Svíþjóð og Finnland.
Leikið verður á Dalvík, Ólafsfirði, Sauðárkróki, Húsavík og Akureyri, en úrslitaleikurinn fer fram á Akureyrarvelli. Viðkomandi íþróttafélög taka virkan þátt í mótshaldinu.
Fyrsti leikur Íslands verður á Akureyrarvelli á þriðjudag, en þá mætir liðið Norðmönnum. Á miðvikudag leikur það gegn Írum á Sauðárkróki, en á í höggi við Dani í Ólafsfirði á föstudag. Allir leikirnir hefjast kl. 17. Árangur liðsins í leikjunum þremur ræður því hvaða sæti Íslendingar leika um eftir viku.
Eins og fram kemur í tilkynningu frá KSÍ hafa yngri landslið Íra vakið mikla athygli undanfarin ár og náð mjög góðum árangri. Þjálfari þeirra er Brian Kerr, en hann stýrir drengjalandsliði Íra hér á landi. Leikmenn þeirra og Englendinga koma margir frá frægum liðum á Bretlandseyjum og innan herbúða þeirra eru eflaust margar stórstjörnur framtíðarinnar.
Þrír leikmenn Englands koma frá Manchester United, jafnmargir frá Chelsea, tveir frá Aston Villa og einn frá hverju eftirtalinna félaga: QPR, Arsenal, Liverpool, Charlton, Middlesbrough, Everton, Huddersfield og Bristol City. Þjálfari enska liðsins er Kenny Swain.
Yfir 200 manns verða á Norðurlandi á vegum knattspyrnusambandsins meðan á keppninni stendur. Þar að auki koma um 25 manns frá hverju þátttökulandi. Einnig má búast við því að mörg evrópsk félagslið sendi "njósnara" til landsins til þess að leita uppi efnilega leikmenn. Þar á meðal verður Tonny Bruins Slot, starfsmaður hollenska liðsins PSV Eindhoven, sem var eitt sinn aðstoðarmaður Johans Cryuff hjá Barcelona.
Íslenskir knattspyrnuáhugamenn þekkja eflaust andlit dómarans Uriah Rennie, en hann mun blása í flautu sína á völlunum á Norðurlandi í vikunni. Garðar Örn Hinriksson er eini íslenski dómarinn í mótinu, en aðstoðardómarar verða eingöngu frá Fróni. Flestir eru þeir frá Norðurlandi.
Lið Íslands verður þannig skipað:
Markverðir eru þeir Ríkharð Snorrason, Fjölni, og Kjartan Þórarinsson, KA. Aðrir leikmenn eru Albert Ásvaldsson og Magnús Edvaldsson, Fram, Ólafur Páll Snorrason, Val, Erlendur Egilsson og Guðlaugur Hauksson, ÍR, Björn Guðbergsson og Egill Atlason, FH, Magnús Sverrir Þorsteinsson og Grétar Gíslason, Keflavík, Gunnar Heiðar Þorvaldsson, ÍBV, Hjálmur Dór Hjálmsson og Jóhannes Gíslason, ÍA, Grétar Steinsson, KS, og Pétur Kristjánsson, Þór.