GRÉTAR Rafn Steinsson, 18 ára knattspyrnumaður úr ÍA, fer til Þýskalands um næstu helgi og verður til reynslu hjá tveimur félögum þar í landi. Fyrst fer hann til 1860 München og síðan til Borussia Mönchengladbach. Grétar er fyrir stuttu kominn heim frá Hollandi þar sem hann æfði með Heerenveen og að sögn Smára Guðjónssonar, formanns Knattspyrnufélags ÍA, eru Hollendingarnir spenntir fyrir því að fá hann aftur til sín. Grétar, sem er Siglfirðingur, lék 13 leiki með ÍA í efstu deild í sumar og var fyrirliði unglingalandsliðsins.
Annar Skagamaður, hinn 16 ára gamli drengjalandsliðsmaður Kristján Hagalín Guðjónsson, er nýkominn heim frá Noregi en þar dvaldi hann í eina viku hjá úrvalsdeildarliðinu Lyn.