Króatar sigruðu Íslendinga, 4:0, í undankeppni HM í knattspyrnu á Maksimir leikvanginum í Zagreb í dag. Staðan í hálfleik var 1:0, Króötum í hag, en þeir bættu við þremur mörkum á síðustu 20 mínútum leiksins. Króatar eru þar með komnir með 10 stig og eru í öðru sæti 8. riðils en Svíar eru efstir með 12 stig. Íslendingar sitja áfram í fimmta og næstneðsta sæti riðilsins með aðeins eitt stig eftir fimm leiki.
Króatar réðu ferðinni frá upphafi til enda og Ísland átti ekki markskot fyrr en á lokamínútu fyrri hálfleiks, en þá munaði litlu að Gylfi Einarsson næði að jafna metin þegar hann skallaði yfir mark Króata eftir hornspyrnu.
Króatar fengu ekki mörg færi í seinni hálfleiknum en þeir nýttu þau vel, skoruðu 3 mörk úr 5 markskotum í hálfleiknum. Þrjú af fjórum mörkum sínum skoruðu þeir eftir aukaspyrnur og önnur bestu færi þeirra komu eftir hornspyrnur, þannig að það voru uppstilltu atriðin sem fóru verst með íslenska liðið, sem aftur á móti hélt vel aftur af Króötum í hefðbundum sóknaraðgerðum þeirra.
Heiðar Helguson fékk besta færi Íslands í leiknum þegar sex mínútur voru til leiksloka. Eftir ágæta sókn hrökk boltinn til Heiðars þar sem hann var einn gegn Butina markverði Króata í vitateignum en Butina náði að verja skot hans.
Alls áttu Króatar 13 markskot í leiknum en Íslendingar 6. Króatar fengu 10 hornspyrnur og Íslendingar eina. Leiknum var lýst beint hér á mbl.is og lýsingin fer hér á eftir:
89. Jerko Leko fær gult spjald fyrir brot.
88. Dado Prso kemur Króötum í 4:0 með hörkuskoti rétt utan vítateigs, boltinn breytir stefnu af varnarmanni og hafnar alveg útvið stöng.
84. Josip Simunic fær gult spjald fyrir að tefja leikinn.
84. Ivan Bosnjak kemur inná fyrir Anthony Seric.
83. Nico Kranjcar skýtur hátt yfir mark Íslands úr góðu færi á vítateigslínu.
82. Heiðar Helguson fær dauðafæri, aleinn gegn Butina markverði Króata, sem nær að verja skot hans.
81. Gylfi Einarsson tekur aukaspyrnuna en skýtur rétt framhjá marki Króata.
80. Brotið á Grétari Rafni Steinssyni, líklega innan við vítateigslínu Króata, en dæmd aukaspyrna rétt utan vítateigs.
79. Jerko Leko kemur inná fyrir Ivan Leko.
75. Nico Kovacs kemur Króötum í 3:0 með viðstöðulausu skoti eftir aukaspyrnu frá hægri.
73. Stefán Gíslason kemur inná fyrir Pétur H. Marteinsson.
71. Josip Simunic kemur Króötum í 2:0 með skoti frá markteig eftir stutta hornspyrnu og fyrirgjöf frá hægri kanti.
67. Ivica Olic kemur inná fyrir Ivan Klasnic.
59. mín. Bjarni Guðjónsson kemur inná fyrir Jóhannes Karl.
55. mín. Pétur H. Marteinsson með skalla framhjá marki Króata eftir aukaspyrnu Jóhannesar Karls Guðjónssonar frá vinstri.
55. Nico Kovacs fær gula spjaldið fyrir brot á Grétari Rafni Steinssyni.
47. mín. Grétar Rafn Steinsson kemur inná sem varamaður fyrir Arnar Þór Viðarsson, sem er meiddur.
Hálfleikur, staðan 1:0. Króatar áttu 8 markskot gegn einu í fyrri hálfleik og fengu 7 hornspyrnur gegn einni.
45. mín. Gylfi Einarsson með skalla rétt yfir mark Króata eftir hornspyrnu Jóhannesar Karls Guðjónssonar.
39. mín. Nico Kovacs kemur Króötum yfir, 1:0, með skalla eftir aukaspyrnu. Íslendingar mótmæla markinu og telja að Kovacs hafi brotið á Gylfa Einarssyni.
38. mín. Indriði Sigurðsson fær gult spjald fyrir brot.
31. mín. Heiðar Helguson fær gult spjald fyrir brot. Þetta er annað gula spjald hans í keppninni og hann verður því í leikbanni í næsta leik, gegn Ungverjum á Laugardalsvellinum í júní.
28. mín. Hermann Hreiðarsson fer blóðugur af velli og kemur skömmu síðar inná aftur með vafið höfuðið.
27. mín. Dado Prso fær gult spjald fyrir brot eftir hornspyrnu Króata, sitt þriðja brot á skömmum tíma.
26. mín. Ivan Klasnic með þrumuskot rétt utan vítateigs sem Árni Gautur Arason ver glæsilega í horn.
19. mín. Boltinn fer í stöng í íslenska marksins eftir hornspyrnu frá vinstri og hrekkur út í markteiginn þar sem Dado Prso skallar yfir úr dauðafæri.
12. mín. Nico Kovacs með skalla í þverslá eftir hornspyrnu frá vinstri.
10. mín. Árni Gautur Arason ver vel eftir lúmska aukaspyrnu Króata af vinstri kanti.
Byrjunarlið Íslands: Árni Gautur Arason - Kristján Örn Sigurðsson, Ólafur Örn Bjarnason, Hermann Hreiðarsson, Indriði Sigurðsson - Jóhannes Karl Guðjónsson, Pétur Hafliði Marteinsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Gylfi Einarsson, Arnar Þór Viðarsson - Heiðar Helguson.
Lið Króatíu: Tomislav Butina, Anthony Seric, Josip Simunic, Stjepan Tomas, Igor Tudor, Nico Kovacs, Niko Kranjcar, Ivan Leko, Darijo Srna, Ivan Klasnic, Dado Prso.