Enski knattspyrnumaðurinn David Beckham skoraði mark beint úr aukaspyrnu í fyrri hálfleik leiks Real Madrid og Real Sociedad í spænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Beckham var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti frá því um miðjan desember. Staðan í hálfleik var 1:1 en Real Madrid vann leikinn 2:1.
Fabio Capello, þjálfari Real Madrid, hafði lýst því yfir að Beckham myndi ekki leika meira með liðinu eftir að hann gerði 250 milljón dala samning við bandaríska liðið Los Angeles Galaxy í janúar. Real Madrid hefur hins vegar gengið illa að undanförnu og Capello ákvað að taka Beckham inn í byrjunarliðið á ný.
Aranburu skoraði strax á 7. mínútu fyrir Real Sociadad en Beckham skoraði á 36. mínútu af 25 metra færi beint úr aukaspyrnu með sínum hætti. Hollendingurinn Ruud van Nistelrooy tryggði Real Madrid síðan sigur skömmu eftir leikhlé.