Stjórn KSÍ samþykkti á fundi sínum í dag að veita Geir Þorsteinssyni nýkjörnum formanni KSÍ heimild til að ráða Þóri Hákonarson í stöðu framkvæmdastjóra KSÍ en því starfi gegndi Geir áður en hann tók við formennsku í knattspyrnusambandinu af Eggerti Magnússyni.
Þórir, sem fæddur er 1969, er með BA próf í Stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands og MSc próf í International Relations frá London School of Economics and Political Science.
Hann var skrifstofustjóri Siglufjarðarkaupstaðar frá árinu 1997-2006 og um leið staðgengill bæjarstjóra. Hann hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Knattspyrnufélag Siglufjarðar og hefur verið formaður frá árinu 2001.
Ný stjórn KSÍ sem kjörin var á árþingi KSÍ um síðustu helgi hélt sinn fyrsta fund í dag. Gengið var frá verkaskiptingu í stjórninni. Geir Þorsteinsson er formaður, Halldór B. Jónsson varaformaður, Guðrún Sívertsen er gjaldkeri og Jón Gunnlaugsson ritari.