Sigurður Ragnar Eyjólfsson, landsliðsþjálfari kvenna í knattspyrnu, hefur fækkað í landsliðshópi sínum niður í 29 leikmenn fyrir alþjóðlega mótið sem fram fer á Algarve í Portúgal í næsta mánuði. Þar af verður hann með 23 leikmenn á æfingum um helgina en sex af þeim sem koma til greina í landsliðið eru erlendis.
Hann mun tilkynna endanlegan 20 manna hóp fyrir ferðina á mánudaginn kemur. Ísland mætir Ítalíu, Írlandi og Portúgal ásamt einu öðru liði á mótinu á Algarve.
Af þessum 29 er óvíst með þær Ástu Árnadóttur, sem er kinnbeinsbrotin en æfir með liðinu, og Ásthildi Helgadóttur sem á við meiðsli að stríða og dvelur auk þess í æfingabúðum með Malmö FF á Spáni þessa dagana. Hrefna Jóhannesdóttir úr KR er úr leik vegna meiðsla og kemst ekki með liðinu til Portúgals.
Auk Ásthildar eru erlendis þær Dóra Stefánsdóttir, Erla Steina Arnardóttir og Þóra B. Helgadóttir, sem spila þar með félagsliðum, og Dóra María Lárusdóttir og Þórunn Helga Jónsdóttir sem eru við nám en allar koma þær til greina í endanlegan 20 manna hóp.
"Við byrjuðum með stóran hóp í janúar og núna eru það fyrst og fremst yngri leikmennirnir, sem eru gjaldgengir í U19 ára landsliðið, sem eru dottnir út. Þær stúlkur eru að fara á mót á Spáni um svipað leyti og einbeita sér að því verkefni, nema hvað Guðný B. Óðinsdóttir er áfram í mínum hópi," sagði Sigurður við Morgunblaðið í gær.
Þær sem æfa um helgina eru eftirtaldar:
Markverðir: Guðbjörg Gunnarsdóttir (Val) og Elsa Hlín Einarsdóttir (Þrótti).
Aðrir leikmenn: Anna Björg Björnsdóttir (Fylki), Ásta Árnadóttir (Val), Björg Ásta Þórðardóttir (Keflavík), Bryndís Bjarnadóttir (Breiðabliki), Edda Garðarsdóttir (KR), Embla Grétarsdóttir (KR), Erna B. Sigurðardóttir (Breiðabliki), Fjóla Dröfn Friðriksdóttir (KR), Greta Mjöll Samúelsdóttir (Breiðabliki), Guðný B. Óðinsdóttir (Val), Guðný Þórðardóttir (Keflavík), Guðrún Sóley Gunnarsdóttir (Breiðabliki), Harpa Þorsteinsdóttir (Stjörnunni), Helga Jóhannesdóttir (Stjörnunni), Hólmfríður Magnúsdóttir (KR), Katrín Jónsdóttir (Val), Katrín Ómarsdóttir (KR), Margrét Lára Viðarsdóttir (Val), Pála Marie Einarsdóttir (Val), Rakel Logadóttir (Val) og Sif Atladóttir (Val).