Eyjamenn geta nagað sig í handarbökin fyrir að hafa ekki náð öllum stigunum í viðureign sinni við Þór frá Akureyri í fyrstu umferð 1. deildar í gær. Liðið fékk urmul af færum, sérstaklega í síðari hálfleik, til þess að gera út um leikinn en ótrúlegur klaufagangur og góð markvarsla kom í veg fyrir það.
Þórsarar beittu skyndisóknum og voru hættulegri fyrir framan mark andstæðinganna en Eyjamenn. Þeir komust yfir á 36. mínútu. Þá kom aukaspyrna frá vinstri á fjærstöng Eyjamarksins. Ingi Heimisson fyrirliði Þórs náði að setja löppina í boltann en svo virtist sem Hrafn Davíðsson hefði varið en aðstoðardómarinn veifaði og dæmdi boltann inn fyrir línuna. Eyjamenn voru ævareiðir yfir þessari niðurstöðu en henni varð ekki breytt.
Á 82. mínútu slapp Andri Ólafsson inn fyrir vörn Þórs, Hlynur Birgisson felldi hann og dæmd var vítaspyrna. Úr henni skoraði fyrirliði ÍBV, Bjarni Hólm örugglega. Bæði lið fengu færi til að stela sigrinum en allt kom fyrir ekki og niðurstaðan varð 1:1 jafntefli.
*Nýliðarnir í Fjarðarbyggð lögðu Þróttara, 2:0, en leikið var innandyra í knattspyrnuhöllinni á Reyðarfirði. Guðmundur Atli Steinþórsson og Andri Valur Ívarsson gerðu mörkin fyrir heimamenn en tveimur leikmönnum var vikið útaf 20 mínútum fyrir leikslok, Jóhanni Inga Jóhannessyni í Fjarðarbyggð og Arnljóti Ástvaldssyni úr Þrótti.
*KA hafði betur gegn Víkingi Ólafsvík á KA vellinum á Akureyri. Sveinn Elías Jónsson skoraði sigurmarkið á 4. mínútu. Aðstæður voru ekki góðar en kalt var í veðri og frekar hvasst.