„Það er ekki hægt að búast við einhverjum stórsigri á móti Liechtenstein. Þetta verður erfiður leikur og alls ekki hægt að bóka stórsigur," sagði Árni Gautur Arason landsliðsmarkvörður um landsleikinn á Laugardalsvelli á morgun.
„Ég held að þeim hafi farið mikið fram síðan við unnum þá 4:0 í tveimur leikjum. Þeir voru mjög sprækir í leiknum við Letta sem þeir unnu og ég sá þá í vetur á móti Svíum og þeir stóðu sig vel þar. Þetta verður því alls ekki auðvelt, en við ætlum okkur að sjálfsögðu að vinna og ná í þrjú stig.
Ég á frekar von á að við reynum að stjórna leiknum enda erum við á heimavelli og ætlum okkur að ná í þrjú stig. Það eru ekki lengur til auðveldir leikir í þessum alþjóðlega bolta og í liði þeirra eru menn sem leika víða, bæði á Ítalíu og í Þýskalandi," sagði Árni Gautur og sagðist albúinn að hafa eitthvað að gera í markinu. „Við göngum ekkert yfir þá," bætti hann við.