Jafntefli gegn Liechtenstein og Eiður í leikbann

Brynjar Björn Gunnarsson.
Brynjar Björn Gunnarsson. Brynjar Gauti

Ísland og Liechtenstein gerðu jafntefli, 1:1, í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í dag. Brynjar Björn Gunnarsson kom Íslandi yfir á 27. mínútu en Raphael Rohrer jafnaði fyrir Liechtenstein á 69. mínútu. Eiður Smári Guðjohnsen fékk sitt annað gula spjald í keppninni og verður í leikbanni þegar Ísland mætir Svíþjóð á miðvikudag í Stokkhólmi.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir:

90+5 Leiknum er lokið með 1:1 jafntefli.

82. Theódór Elmar Bjarnason var að koma inn á fyrir Emil Hallfreðsson. Fyrsti landsleikur Theódórs Elmars.

77. Íslendingar sækja stíft þessa stundina. Eiður Smári átti frábæra rispu sem endaði með skoti sem var varið og Hannes virtist ætla að ná frákastinu en var aðeins of seinn. Birkir Már er sprækur á hægri vængnum og ógnar verulega.

71. Hannes Þ. Sigurðsson er að koma inn á fyrir Veigar Pál Gunnarsson og Emil Hallfreðsson fékk gult spjald rétt í þessu.

69.1:1 Raphael Rohrer jafnar fyrir Liechtenstein, plataði varnarmenn Íslands upp úr skónum hægra megin í vítateignum og fékk frítt skot sem Árni Gautur réð ekki við. Birkir Már Sævarsson var að koma inn á í sinn fyrsta landsleik, skipti við Matthías Guðmundsson.

62. Eiður Smári var að fá gult spjald. Hann var dæmdur rangstæður en hélt áfram og skaut að marki. Dómarinn ætlaði að láta það óátalið en Eiður Smári mótmælti þar til hann fékk gula spjaldið og verður því í leikbanni þegar Ísland mætir Svíum á miðvikudaginn.

58. Mario Frick fékk dauðafæri en mokaði knettinum yfir markið frá markteig.

47. Óbreytt lið hefja síðari hálfleikinn. Eiður Smári átti flott skot úr aukaspyrnu af 30 metra færi sem markvörðurinn varð að hafa sig allan við til að verja.

Liechtenstein átti 5 markskot í fyrri hálfleik, þar af 4 sem hittu á markið. Ísland átti aðeins 3 markskot í hálfleiknum, tvö sem hittu á markið. Liechtenstein fékk 3 hornspyrnur í fyrri hálfleik en Ísland aðeins eina.

45. Kominn er hálfleikur og staðan er 1:0. Skömmu fyrir hálfleikinn komst Eiður Smári inn fyrir vörnina en náði ekki góðu skoti undir þrýstingi frá varnarmanni.

40. Michele Polverino á gott skot af 25 metra færi sem fór í þverslánna.

38. Thomas Beck fékk flott færi en Árni Gautur varði skorið sem var beint á hann. Íslendingar sluppu með skrekkinn.

33. Mario Frick, aðalmarkaskorari Liechtenstein komst einn inn fyrir vörn Íslands og náði skoti af markteigshorninu vinstra megin. Árni Gautur varði vel.

27. 1:0 Brynjar Björn Gunnarsson. Emil Hallfreðsson tók aukaspyrnu á hægri vængnum og sendi boltann fast inn á makrteiginn þar sem Brynjar Björn rétt snerti hann með höfðinu og sneiddi hann í vinstra markhornið.

20. Íslenska liðið hefur náð undirtökunum á ný eftir ágætan kafla hjá gestunum. Lið Lichtenstein er ágtlega spilandi en tekur sér langan tíma í markspyrnur, hornspyrnur og aukaspyrnur, greinilega sáttir við stöðuna eins og hún er.

10. Íslendingar byrja leikinn ágætlega og hafa stjórnað honum fyrstu tíu mínúturnar utan hvað að gestirnir fengu tvær hornspyrnur í röð og komust nærri því í færi en Árni Gautur var snöggur út og náði boltanum.

Dómari er Sten Kaldma frá Eistlandi.

Íslendingar hefja leikinn og leika í átt að Laugardalshöllinni.

Byrjunarlið Íslands er þannig: Árni Gautur Arason - Grétar Rafn Steinsson, Kristján Örn Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Gunnar Þór Gunnarsson - Matthías Guðmundsson, Brynjar Björn Gunnarsson, Stefán Gíslason, Emil Hallfreðsson - Eiður Smári Guðjohnsen fyrirliði, Veigar Páll Gunnarsson.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert