Það er ekki hlýtt í augnablikinu milli þýsku landsliðsmannanna Miroslav Klose og Torsten Frings, sem báðir spila með Werder Bremen. Klose þurfti á dögunum að biðja félagið, og stuðningsmenn þess, afsökunar á að hafa staðið í samningaviðræðum við Bayern München og segir Frings að Klose ætti að yfirgefa félagið því að óánægður leikmaður hjálpi engum. Hinn hávaxni Klose svaraði því til að skoðanir Frings breytist eins og vindáttin.
„Það vita það allir sem þekkja Torsten að þó hann segi sína skoðun á einhverju núna þá heldur hann því gagnstæða fram þegar vindurinn breytir um átt. Ég sagði ekkert þegar hann var orðaður við Juventus og ég vildi óska þess að hann sýndi mér sömu kurteisi,“ sagði Klose sem þrátt fyrir að hafa gert nýjan samning við Bremen er ennþá orðaður við Bayern. Kurr í herbúðum þýska landsliðsins er sjálfsagt ekkert sem Joachim Loew, þjálfari liðsins, vill hafa og það síst daginn fyrir mikilvægan leik liðsins gegn Slóvakíu í undankeppni Evrópumótsins.