Hinn 24 ára gamli franski landsliðsmaður, Franck Ribery, hefur ákveðið að yfirgefa Marseille og skrifaði í dag undir fjögurra ára samning við Bayern München en lengi hefur legið ljóst fyrir að hann færi eftir tímabilið. Bayern er talið hafa greitt u.þ.b. 25 milljónir evra, eða um 2,1 milljarð íslenskra króna, fyrir leikmanninn. Hann er þar með orðinn dýrasti leikmaður í sögu þýska liðsins.
„Allt gekk vel. Ég er ánægður með að geta hjálpað Bayern,“ sagði Ribery í München í dag. Miklar getgátur hafa verið uppi um hvert kappinn, sem stóð sig frábærlega á Heimsmeistaramótinu síðasta sumar, myndi fara og voru lið á borð við Real Madrid oft nefnd í því sambandi. Bayern endaði í 4. sæti þýsku deildarinnar á síðustu leiktíð og verður því ekki með í Meistaradeild Evrópu á þeirri næstu. Engu að síður hefur liðið verið að bæta við sig leikmönnum og á dögunum gekk framherjinn Luca Toni til liðs við félagið. Miroslav Klose, framherji Werder Bremen, sagði svo á blaðamannafundi í dag að hann muni ganga til liðs við Bayern og vonist til að það geti orðið sem fyrst.