„Ég verð að taka fimmta markið á mig og verð trúlega að reyna lifa með því, og ég sé bara ekkert skondið við það," sagði Ívar Ingimarsson, varnarmaður íslenska landsliðsins, eftir að það tapaði, 5:0, fyrir Svíum í undankeppni EM í Stokkhólmi í gærkvöldi.
Fimmta markið var með því furðulegasta sem sést hefur lengi því að Ívar var með boltann í vítateignum og allir virtust halda að dómarinn hefði dæmt eitthvað og Ívar sendi boltann á Marcus Allbäck sem virtist líka halda að dómarninn hefði flautað, en ákvað síðan að skjóta á markið engu að síður. Hann skoraði og dómarinn benti á miðjuna.
„Ég var með boltann inni í teignum og þegar ég leit upp sá ég að dómarinn benti inn í vítateiginn og hélt að hann væri að dæma aukaspyrnu. Ég leit í kringum mig og sá að allir voru hættir og í barnaskap mínum sendi ég boltann til Árna Gauts þannig að hann gæti tekið aukaspyrnuna, en Svíinn tók boltann og hann virtist heldur ekki alveg með hlutina á hreinu en skaut samt eftir nokkra umhugsun," sagði Ívar.
„Mér líður hræðilega út af þessu og hef sem betur fer aldrei lent í svona vitleysu áður og á vonandi aldrei eftir að gera það aftur. Ég verð að lifa við þetta og vonandi læri ég eitthvað af þessu og það skiptir mig engu máli og gerir hlutina ekkert betri fyrir mig að þetta var fimmta markið í leiknum. Það er jafn hræðilegt fyrir það því sem knattspyrnumaður vill maður ekki gera svona vitleysu.
Ég heyrði ekki í neinni flautu, en þegar ég fékk boltann og leit upp sá ég að allt var í kyrrstöðu og dómarinn benti inn í teiginn, þannig að ég var sannfærður um að hann hefði dæmt okkur aukaspyrnu. Ég vann boltann þarna en það var togað í mig og boltinn fór í höndina á mér, en þegar ég horfði á dómarann hélt ég að hann væri að dæma aukaspyrnu á Svía vegna þess að það var togað í mig," sagði Ívar.
Nánar er fjallað um leikinn við Svía í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.