Ugla hjálpaði Finnum að sigra Belga

Uglan situr á þverslánni og ógnar leikmönnum Finnlands og Belgíu.
Uglan situr á þverslánni og ógnar leikmönnum Finnlands og Belgíu. Reuters

Stöðva þurfti leik Finnlands og Belgíu í undankeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í Helsinki í gærkvöld þegar stór ugla kom fljúgandi ofan af áhorfendapöllunum, settist á þverslá belgíska marksins og lét ófriðlega. Dómarinn þurfti að gera sjö mínútna hlé á leiknum á meðan uglunni var komið í burt en hún hafði góð áhrif á Finna sem komust 1:0 yfir strax eftir að uglan hvarf á braut og unnu síðan 2:0.

Samkvæmt vef sænska sjónvarpsins bjó uglan í 28. sætaröð vallarins í allan vetur. Þegar 19 mínútur voru liðnar af leiknum kom hún skyndilega fljúgandi og settist á þverslána. Framkoma hennar þótti mjög ógnandi.

Það var aðeins mínúta liðin frá því leikurinn hófst að nýju þegar Jonatan Johansson skoraði fyrir Finna - sendi boltann í markið sem uglan hafði lagt undir sig, og þeir uppskáru síðan góðan sigur.

Meðfylgjandi myndir sýna ugluna herskáu á umráðasvæði sínu á Ólympíuleikvanginum í Helsinki. Smellið á myndirnar til að sjá stærri útgáfur af þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert