Grindavík og Fjarðabyggð áfram á sigurbraut

Paul McShane tryggði Grindavík sigur á síðustu stundu.
Paul McShane tryggði Grindavík sigur á síðustu stundu. Morgunblaðið/Sverrir

Grindavík og Fjarðabyggð unnu góða sigra í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld og eru ósigruð enn sem komið er. Eyjamenn eru líka taplausir en þeir náðu að landa sínum fyrsta sigri í kvöld. Leiknir R. og Víkingur Ó. sitja hinsvegar eftir á botni deildarinnar með aðeins eitt stig hvort.

Grindvíkingar unnu Njarðvíkinga, 3:2, í grannaslag í Grindavík þar sem Paul McShane skoraði sigurmarkið á síðustu mínútunni. Hann skoraði tvö mörk og Scott Ramsay eitt en Sævar Eyjólfsson og Aron Már Smárason skoruðu fyrir Njarðvíkinga sem jöfnuðu metin seint í leiknum eftir að hafa lent snemma 2:0 undir.

Jón Gunnar Eysteinsson tryggði Fjarðabyggð sigur á Þór í leik tveggja ósigraðra liða á Eskifirði, 1:0. Nýliðar Fjarðabyggðar hafa enn ekki fengið á sig mark í fyrstu fjórum leikjunum.

ÍBV fékk óskabyrjun gegn Leikni R. í Breiðholtinu þegar Bjarni Rúnar Einarsson skoraði strax á 2. mínútu. Fyrirliðinn Bjarni Hólm Aðalsteinsson innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnu seint í leiknum.

Þróttarar gerðu góða ferð til Ólafsvíkur og lögðu Víkingana þar, 2:0, með mörkum frá Hirti Hjartarsyni og Arnljóti Ástvaldssyni.

Eftir þessa leiki er Grindavík með 13 stig, Þór 10, Fjarðabyggð 10, Þróttur 7, ÍBV 6, Stjarnan 5, KA 5, Fjölnir 4, Reynir S. 4, Njarðvík 3, Leiknir R. 1 og Víkingur Ó. 1 stig. Lið Grindavíkur, Þórs, Njarðvíkur og Víkings Ó. hafa leikið 5 leiki en hin liðin 4 leiki hvert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert