"Það höfðu kannski ekki allir trú á að við myndum vinna Frakka en við höfum trú á því sjálfar. Það er frábært að byrja keppnina á þennan hátt," sagði Ásthildur Helgadóttir fyrirliði Íslands við fréttavef Morgunblaðsins eftir sigurinn frækna gegn Frakklandi, 1:0, í undankeppni EM á Laugardalsvellinum í dag.
Eftir Víði Sigurðsson:
„Það var mikil barátta í liðinu frá fyrstu mínútu, og jafnframt mikil þolinmæði. Við lékum agaðan og skipulagðan varnarleik, og svo vissum við að marktækifærin myndu koma, og sem betur fer náðum við að nýta eitt þeirra.
Það lá talsvert á okkur á köflum í leiknum og það voru nokkrar erfiðar mínútur þar sem Þóra hélt okkur inni í leiknum með því að verja vel. Svo náðum við að koma okkur betur inní leikinn, eftir því sem á leið. Leikurinn þróaðist í raun eins og við vildum og það er frábært að vinna þjóð eins og Frakkland. Þessi sigur gefur okkur mikið sjálfstraust fyrir framhaldið en nú verðum við að vera fljótar að koma okkur niður á jörðina. Í dag eigum við að njóta sigursins en á morgun byrjum við að einbeita okkur að leiknum við Serba á fimmtudaginn," sagði Ásthildur.
Hún sagði að það hefði verið magnað að horfa á eftir boltanum rúlla yfir marklínuna. „Boltinn hreinlega lak inn en það var frábært að sjá það og hún er ótrúlega markheppin, stelpan, að maður vissi eiginlega að hún myndi skora," sagði Ásthildur Helgadóttir. Reyndar verður markið skráð sem sjálfsmark en Margrét Lára Viðarsdóttir átti allan heiður af því. Hún skallaði að marki, markvörðurinn varði en fékk boltann aftur í sig og þaðan rúllaði hann yfir marklínuna, á 81. mínútu leiksins.