"Þetta er frábært, ég er varla farin að átta mig á þessu ennþá. Ég var að deyja úr þreytu á lokakaflanum, þetta var svo gífurlega erfiður leikur, en samt náði ég að hlaupa og fagna sigurmarkinu," sagði Katrín Jónsdóttir sem hafði mikið að gera í vörn íslenska kvennalandsliðsins þegar það vann frækinn sigur á því franska, 1:0, á Laugardalsvellinum í dag. Hún sagði ennfremur að það hefði skipt sköpum fyrir íslenska liðið að fá vináttulandsleikinn gegn Englandi í maí.
Eftir Víði Sigurðsson:
"Mér fannst við spila vel í fyrri hálfleik þó það hefði verið pressa á okkur. Þær voru mikið með boltann en við lokuðum á allar sendingar svo þær sköpuðu aldrei neina verulega hættu. Þær skutu fyrir utan en Þóra átti auðvelt með allt sem kom á markið.
Í seinni hálfleik, sérstaklega á 20 mínútna kafla framan af, var þung pressa á okkur og þá virtist komin talsverð þreyta í okkar lið. Við gerðum of mikið af því að senda boltann beint á Frakkana þegar við unnum hann og sjálfsagt hefur markið hjá þeim virst liggja í loftinu.
En ólíkt því sem oft hefur verið hjá okkur gegn svona sterkum þjóðum náðum við að snúa því aftur og vinna okkur inn í leikinn. Við fengum góðar sóknir og markið var frábært þegar það kom, bæði hjá Dóru Maríu og Margréti Láru.
Ásthildur og Margrét náðu mjög vel saman í framlínunni og svo komu þær Hólmfríður og Dóra María mjög vel inní leikinn þegar þeim var skipt inná. Greta og Erla stóðu sig vel á köntunum en þetta er svo erfið staða að það er ekki hægt að skila henni vel nema í 60-70 mínútur á fullu," sagði Katrín við fréttavef Morgunblaðsins.
Hún sagði ennfremur að það hefði verið geysilega dýrmætt að fá vináttulandsleikinn gegn Englandi í maí. Enska liðið, sem er áþekkt því franska að styrkleika og einu sæti neðar á heimslistanum, vann þá stórsigur, 4:0, en það skipti ekki öllu máli. "Við gerðum fullt af mistökum í þeim leik, sem við lærðum mikið af og notuðum til að laga okkar leik fyrir þessa viðureign við Frakka, og það kom okkur virkilega að góðum notum í dag. Það skipti öllu að fá leik gegn svona sterkum andstæðingum áður en mótið byrjaði," sagði Katrín Jónsdóttir.