Nýtt samningstilboð líkara kveðjubréfi

Javier Saviola kveðst ekki munu klæðast búningi Barcelona á næstu …
Javier Saviola kveðst ekki munu klæðast búningi Barcelona á næstu leiktíð. Reuters

„Þeir hafa ekki komið vel fram við mig en það er þeirra mál,“ segir argentíski framherjinn Javier Saviola eftir að hafa gefið það út að hann sé á förum frá spænska knattspyrnuliðinu Barcelona. Saviola hefur átt erfitt uppdráttar hjá félaginu eftir að Frank Rijkaard tók við stjórninni og meðal annars verið lánaður til Mónakó og Sevilla á síðustu leiktíðum.

Saviola kom til Barcelona frá River Plate í Argentínu fyrir 28 milljónir dala, 1,7 milljarð íkr., árið 2001 og hefur skorað 49 mörk í 119 leikjum fyrir félagið. Hann segir Barcelona hafa boðið honum nýjan samning en að sá samningur hafi frekar hljómað eins og kveðjubréf. „Ég á ekki við að einhverjum einum sé um að kenna en ég kveð ósáttur,“ sagði þessi 25 ára leikmaður. Lítið er vitað um til hvaða liðs Saviola fer en hann útilokar ekkert sjálfur, ekki einu sinni höfuðandstæðingana og Spánarmeistarana í Real Madrid.

Fleiri leikmenn gætu einnig verið á leið frá Barcelona. Samningur við framherjann Santiago Ezquerro hefur ekki verið endurnýjaður og mun hann því vera á förum. Evrópumeistarar AC Milan hafa lýst yfir miklum áhuga á að fá kamerúnska markaskorarann Samuel Etoo, og þá eru einnig uppi miklar getgátur um framtíð Eiðs Smára Guðjohnsen hjá félaginu, svo dæmi séu tekin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert