Forráðamenn norska knattspyrnuliðsins Grand Bodö hafa mikinn áhuga á að fá landsliðskonuna Margréti Láru Viðarsdóttur til liðs við sig að því er norskir fjölmiðlar greindu frá í gær. Margrét Lára kvaðst í samtali við Morgunblaðið kannast við þennan áhuga en sagði að ekkert samningstilboð hefði borist.
"Ég vil í rauninni ekkert hugsa um þetta núna. Aðalmálið er að einbeita sér að því að spila vel fyrir Val og landsliðið og sjá svo til í haust," sagði Margrét Lára.
Hún segist vissulega stefna á að fara aftur út í framtíðinni en að stefnan sé að komast að hjá sterkara félagi en Grand Bodö, sem er í botnbaráttu norsku deildarinnar.
Norskir fjölmiðlar segja Margréti Láru þéna um 250 þúsund krónur á mánuði hjá Val, en að norska félagið sé tilbúið að tvöfalda þá upphæð. Margrét Lára segist ekki hafa hugmynd um hvernig laun hennar hafi verið áætluð en að þær áætlanir séu alls ekki réttar.