Fimm marka sigur Íslands á Serbum

Ásthildur, Katrín og Dóra María fagna einu af 5 mörkum …
Ásthildur, Katrín og Dóra María fagna einu af 5 mörkum íslenska liðsins í frábærum sigri á Serbíu. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenska landsliðið vann í kvöld Serba með fimm mörkum gegn engu í undankeppni Evrópumótsins. Þar með hefur Ísland unnið alla þrjá leiki sína í keppninni til þessa og er efst í sínum riðli. Það var Dóra Stefánsdóttir sem skoraði fyrsta mark Íslands strax á 3. mínútu og á eftir fylgdu mörk frá Dóru Maríu Lárusdóttur, Katrínu Jónsdóttur og Margréti Láru Viðarsdóttur auk þess sem Serbar skoruðu eitt sjálfsmark. Frábær sigur og gaman að geta þess að aldrei hafa fleiri áhorfendur mætt á kvennalandsleik á Íslandi því tæplega 6000 áhorfendur lögðu leið sína í Laugardalinn.

Næsta viðureign liðsins er á útivelli gegn Slóveníu 26. ágúst.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu sem hægt er að lesa hér að neðan. Nánari umfjöllun og viðtöl í Morgunblaðinu í fyrramálið.

86. 5:0. Sjálfsmark Serba. Eftir að Katrín Ómarsdóttir vann boltann af varnarmönnum Serba gaf hún á Margréti Láru sem gaf til baka á Katrínu en varnarmaður Serba varð fyrir sendingunni og spyrnti boltanum í eigið net.

84. Katrín Ómarsdóttir kemur inn á í stað Ásthildar Helgadóttur.

83. Margrét Lára á gott skot sem markvörður Serba varði en boltinn var við það að leka yfir línuna þegar varnarmaður Serba hreinsaði burt.

81. 4:0. Margrét Lára Viðarsdóttir fékk góða sendingu frá Hólmfríði inn á miðjan vítateig og skoraði með flottu skoti sem sleikt vinstri stöngina.

80. Erla Steina Arnardóttir kemur inn á hægri kantinn í stað Dóru Maríu Lárusdóttur.

64. Hólmfríður Magnúsdóttir kemur inn á vinstri kantinn í stað Grétu Mjallar Samúelsdóttur.

61. Margrét Lára fékk sendingu inn fyrir frá Ásthildi og kom ágætis skoti á markið sem markvörður Serba varði.

57. 3:0. Katrín Jónsdóttir skallaði knöttinn glæsilega í efra vinstra hornið eftir góða hornspyrnu Eddu Garðarsdóttur.

Búið er að flauta til hálfleiks. Íslenska liðið hefur átt nokkur marktækifæri utan þeirra tveggja sem skilað hafa marki á meðan þær serbnesku hafa lítið sem ekkert ógnað íslenska markinu. Staðan í hálfleik er því mjög sanngjörn. Liðið er vel stutt af fjölda áhorfenda og met er slegið í kvöld því aldrei hafa fleiri áhorfendur mætt á kvennalandsleik á Íslandi.

23. 2:0. Dóra María Lárusdóttir tók við skallasendingu frá Ásthildi Helgadóttur og skoraði gott mark úr vítateignum með hnitmiðuðu skoti neðst í vinstra horn marksins.

18. Íslenska liðið ræður lögum og lofum á vellinum og Margrét Lára Viðarsdóttir var nálægt því að bæta við öðru marki þegar hún kom boltanum í netið en var réttilega dæmd rangstæð.

3. 1:0. Dóra Stefánsdóttir skorar með hörkuskoti af vítateigslínunni eftir að markvörður Serba hafði kýlt boltann út.

Leikurinn er hafinn og íslenska liðið mætir ákveðið til leiks í blíðskaparveðri í Laugardalnum.

Byrjunarlið Serba liggur fyrir og í því eru þrír leikmenn íslenskra liða, þær Lidija Stojkanovic úr HK/Víkingi, Vesna Smiljkovic úr Keflavík og Vanja Stefanovic úr Val. Á varamannabekknum er svo Danka Podovac úr Keflavík.

Lið Íslands (4-4-1-1): Þóra B. Helgadóttir - Sif Atladóttir, Katrín Jónsdóttir, Guðrún Sóley Gunnarsdóttir, Guðný Björk Óðinsdóttir - Dóra María Lárusdóttir, Edda Garðarsdóttir, Dóra Stefánsdóttir, Greta Mjöll Samúelsdóttir - Margrét Lára Viðarsdóttir - Ásthildur Helgadóttir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert