Dramatík var í Njarðvík í gærkvöldi þegar heimamenn tóku á móti Fjölnismönnum úr Grafarvogi í 7. umferð fyrstu deildar karla í knattspyrnu. Fjölnismenn komust yfir strax á 6. mínútu með marki Gunnars Más Guðmundssonar úr vítaspyrnu en hinn reyndi markvörður Njarðvíkinga, Albert Sævarsson, sá til þess að Fjölnismenn færu tómhentir heim því hann skoraði úr tveimur vítaspyrnum í seinni hálfleiknum, og kom síðara markið þegar rétt tæpar 5 mínútur voru eftir af leiknum. Njarðvíkingar voru vel að sigrinum komnir en Fjölnismenn léku reyndar einum manni færri síðasta kortérið eftir að Heimir Snær Guðmundsson fékk að líta sitt annað gula spjald.
Grindvíkingar unnu einmitt góðan 2:1 heimasigur á Þrótturum í toppslag umferðarinnar. Það voru þeir Andri Steinn Birgisson og Scott Ramsay sem skoruðu mörk heimamanna en Þórhallur Örn Hinriksson minnkaði muninn.
Eyjamenn gerðu góða ferð til Ólafsvíkur og unnu 1:0 sigur á Víkingum með marki Yngva M. Borgþórssonar þegar um 10 mínútur lifðu leiks. ÍBV er því komið í þriðja sæti deildarinnar, sem gefur sæti í Landsbankadeildinni á næsta ári.
Mikil markasúpa var á gervigrasvellinum í Garðabæ þar sem Stjarnan vann Þór, 5:2. Stjarnan komst í 4:0 áður en Þórsarar svöruðu með tveim mörkum. Það var síðan Guðjón Baldvinsson sem innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki.
Á Akureyri gerðu KA-menn markalaust jafntefli við Reyni frá Sandgerði og eru bæði lið því enn nálægt botninum.