Veigar Páll Gunnarsson og félagar hans í Stabæk skutust í gær í toppsæti norsku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu. Stabæk lagði Tromsö, 0:1, á útivelli en Brann sem var í toppsætinu varð að láta í minni pokann fyrir Viking, 3:1, á útivelli.
Veigar lék allan tímann í framlínu Stabæk. Hann náði ekki að skora en nældi sér í gult spjald undir lok leiksins.
*Kristján Örn Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason stóðu vaktina í vörn Brann sem tapaði fyrir Viking, 3:1. Ólafur fékk að líta rauða spjaldið sjö mínútum fyrir leikslok fyrir að brjóta á sóknarmanni Viking sem var að sleppa einn í gegn. Hannes Þ. Sigurðsson lék síðustu fimm mínúturnar fyrir Viking en Birkir Bjarnason sat á tréverkinu allan tímann.
*Haraldur Freyr Guðmundsson lék allan tímann í vörn Álasunds sem hafði betur gegn Vålerenga, 1:0. Árni Gautur Arason lék í marki Vålerenga sem hefur vegnað illa á tímabilinu og er í 10. sæti deildarinnar en liðið varð meistari fyrir tveimur árum.
*Garðar Jóhannsson lék allan tímann í framlínu Fredrikstad þegar liðið lá, 2:1, á útivelli fyrir Strömsgodset.
*Viktor Bjarki Arnarsson lék ekki með Lilleström vegna meiðsla þegar það sigraði Start, 1:0. Jóhannes Harðarson var ekki í leikmannahópi Start.
Stabæk hefur 25 stig í efsta sæti, Brann 23 og Lilleström og Viking koma næst með 21 stig.