Þrátt fyrir að Real Madrid næði á nýliðnu leiktímabili að vinna spænsku deildina í fyrsta sinn síðan 2003, hefur knattspyrnustjórinn Fabio Capello nú verið látinn fara. Hann fékk því aðeins eitt leiktímabil til að sanna sig hjá Madridar-liðinu. Forseti liðsins, Ramon Calderon, sagði ástæðuna vera þá að Real „verði alltaf að leita eftir því fullkomnasta,“ að því er spænska dagblaðið Marca greinir frá.
„Við náðum mikilvægu skrefi þegar við unnum titilinn og höfum lagt góðan grunn, en spilamennska okkar verður að einkennast af meiri metnaði,“ sagði Calderon.
Capello hefur m.a. þjálfað lið AC Milan og Juventus í ítölsku deildinni við góðan orðstír. Þetta var í annað skiptið sem Capello stjórnar Real Madrid en hann stýrði liðinu leiktíðina 1996-1997 og gerði liðið einnig þá að Spánarmeisturum. Hann átti tvö ár eftir af samningi sínum við Real.
Hinn þýski Bernd Schuster, þjálfari Getafe, er talinn líklegur arftaki Capello.