Leik litháíska liðsins Vetra og pólska liðsins Legia Varsjá, sem sló FH-inga út í forkeppni Meistaradeildarinnar í fyrra, í Intertoto-keppninni í knattspyrnu var flautaður í hálfleik af þegar liðin áttust við í Vilnius i Litháen í kvöld. Vetra var yfir 2:0 en í hálfleik þustu hundruðir stuðningsmanna Legia inn á völlinn, rifu netin úr mörkunum og létu öllum illum látum.
Kalla þurfti til óeirðalögreglu sem notaði táragas til að koma pólsku stuðningsmönnunum af vellinum en um 100 þeirra voru handteknir. Dómari leiksins hafði engin önnur ráð en að flauta leikinn af og svo getur farið að Legia Varsjá verði vísað úr keppninni en sigurliðið á að mæta Blackburn í þriðju umferð keppninnar.