Emil seldur frá Lyn til Reggina

Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu.
Emil Hallfreðsson í leik með íslenska landsliðinu. Golli

Landsliðsmaðurinn Emil Hallfreðsson er genginn til liðs við ítalska A-deildarliðið Reggina aðeins hálfum mánuði eftir að hann samdi við norska úrvalsdeildarliðið Lyn. Þetta er staðfest á heimasíðu Reggina í kvöld og norskir fjölmiðlar greina frá þessu.

Samningur Emils við Reggina er til fjögurra ára en hann gekk í raðir Lyn frá Tottenham í byrjun mánaðarins og lék tvo leiki með liðinu.

,,Við fengum gott tilboð í Emil á ákváðum að taka því. Hann hefur verið það stutt hjá okkur að við höfum ekki einu sinni þurft að greiða honum laun svo kaupin á honum reyndist góð fjárfesting," segir Torgeir Bjarmann yfirmaður knattspyrnumála við norska fjölmiðla í kvöld.

Bjarmann vill ekki greina frá því hvert kaupverðið er. ,,Við fengum tilboð og það er ekki á hverjum degi sem leikmaður í norsku úrvalsdeildinni er seldur til liðs í ítölsku A-deildinni. Þetta gekk fljótt fyrir sig og þetta bætir fjárhag félagsins," segir Bjarmann.

Reggina hafnaði í 13. sæti af 20 liðum á síðustu leikíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert