FH-ingar unnu í kvöld 1:0 sigur á Valsmönnum í síðasta leik 8-liða úrslita VISA-bikars karla. Leikurinn var markalaus allt þar til á lokamínútu venjulegs leiktíma þegar Ásgeir Gunnar Ásgeirsson tryggði FH sigur með þrumuskoti. Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fylgir hún hér á eftir.
Í lið FH vantar þá Sverri Garðarsson og Dennis Siim sem báðir taka út leikbann.
Leiknum er lokið með sigri FH.
90.mín. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson skorar á lokamínútu venjulegs leiktíma. Guðmundur Sævarsson átti fyrirgjöf og einn FH-inga náði hörkuskoti í stöngina. Boltinn barst út í teig þar sem Ásgeir Gunnar þrumaði knettinum í netið.
85.mín.Baldur Aðalsteinsson, Valsmaður, fékk dauðafæri, eftir sendingu frá Helga Sigurðssyni, og var kominn einn á móti Daða Lárussyni, markverði FH, en gott skot hans var frábærlega varið.
83.mín. Tommy Nielsen átti hörkuskalla að marki Valsmanna en Sigurbjörn Hreiðarsson bjargaði á marklínu og skömmu seinna voru FH-ingar aftur nálægt því að skora en Kjartan Sturluson náði að verja.
70.mín. Sigurbjörn Hreiðarsson er kominn inn á í stað Pálma Rafns Pálmasonar. Bæði lið hafa reynt að skapa sér færi en ekki haft árangur sem erfiði.
63.mín. Sigurvin Ólafsson fer af leikvelli og í hans stað kemur Atli Guðnason
61.mín. Atli Sveinn Þórarinsson átti skalla inn í vítateig og úr mikilli þvögu kom önnur löpp Gunnars Einarssonar sem spyrnti boltanum að marki FH, en Daði Lárusson varði vel.
58.mín.Sigurvin Ólafsson fékk sannkallað dauðafæri en skallaði boltann framhjá markinu. Sigurvin var aðþrengdur af varnarmönnum og náði því ekki að stýra boltanum í netið.
53.mín. Guðmundur Sævarsson átti hættulega sendingu fyrir og Matthías Vilhjálmsson var nálægt því að ná til boltans, en Atli Sveinn Þórarinsson spyrnti honum fram hjá markinu og bjargaði í horn.
46. mín. Seinni hálfleikur er hafinn. Valsmenn hafa gert breytingu á liði sínu. Í stað Baldurs Bett kom Dennis Bo Mortensen. Daninn leikur á vinstri kantinum og Bjarni Ólafur Eiríksson færist inn á miðjuna í stað Baldurs.
Kristinn Jakobsson, dómari leiksins, hefur flautað til leikhlés. Leikurinn hefur verið nokkuð fjörugur en staðan er enn markalaus. Bæði lið sækja hratt og oft hefur munað litlu að góð færi sköpuðust. FH-ingar hafa verið nokkuð líklegri til að skora.
Lið Vals: Kjartan Sturluson, Birkir Már Sævarsson, Atli Sveinn Þórarinsson, Gunnar Einarsson, Rene Carlsen, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Baldur Bett, Pálmi Rafn Pálmason, Bjarni Ólafur Eiríksson, Guðmundur Benediktsson, Helgi Sigurðsson.
Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Auðun Helgason, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Ásgeir Gunnar Ágeirsson, Sigurvin Ólafsson, Davíð Þór Viðarsson, Matthías Guðmundsson, Matthías Vilhjálmsson, Tryggvi Guðmundsson.