Spænska félagið Barcelona hafnaði 60 milljón evra, eða um 5,4 milljarða króna, tilboði AC Milan í brasilíska knattspyrnusnillinginn Ronaldinho. Þetta segir allavega umboðsmaðurinn og bróðir hans, Roberto Assis, við ítalska íþróttadagblaðið Gazzetta dello Sport í dag.
Assis segir að Barcelona vilji halda Ronaldinho á Camp Nou ferilinn á enda en núgildandi samningur hans við félagið er til ársins 2010. Assis sagði að þegar væri búið að uppfæra samning bróður síns fjórum sinnum og frekari viðræður um framlengingu væru í bígerð.