Enskir fjölmiðlar fullyrtu í dag að úrvalsdeildarliðin sem verið hafa á eftir Eiði Smára Guðjohnsen, fyrirliða íslenska landsliðsins í knattspyrnu og leikmanns Barcelona á Spáni, hafi gefist upp á launakröfum kappans, sem sagður er í vefmiðli Daily Mail vilja um 100.000 pund á viku, eða um tvær milljónir króna á dag. Í viðtali á Stöð 2 í kvöld blés Eiður Smári á þessar sögur.
„Ég veit ekki hvaðan þessar launakröfur koma en ég hef ekki verið að ræða við nein lið um hugsanleg félagaskipti. Þessar kröfur koma allavega ekki frá mér,“ sagði Eiður Smári. Hann segist nú alfarið einbeita sér að því að jafna sig á hnémeiðslum sem hann hefur glímt við upp á síðkastið.
„Ég vona að ég þurfi ekki að fara í aðgerð og allir læknar sem ég hef talað við eru sammála um að meiðslin séu ekki til lengri tíma. En þetta er mjög aumt og það er óljóst hversu lengi þau munu vara. Ég hef ekki getað æft til þessa og finnst ég ekki klár í það næstu vikurnar,“sagði Eiður Smári, en sprautumeðferð sem hann hefur verið í hefur ekki skilað nægum árangri.
Txiki Begiristain, íþróttastjóri Barcelona, hefur lýst því yfir að best væri fyrir Eið Smára að yfirgefa félagið, eins og greint var frá hér. Eiður Smári furðar sig á þessum ummælum.
„Ég hef ekki heyrt frá þessum manni eða öðrum yfirmönnum Barcelona varðandi þessi mál. Hann talar um að ég hafi hafnað einhverjum tilboðum en það hefur enginn sagt mér frá neinu tilboði svo ég veit ekki hverju ég á að hafa hafnað,“ sagði Eiður Smári.
Aðspurður um fréttir af félagaskiptum til Íslendingafélagsins West Ham, viðurkenndi Eiður Smári að hafa rætt við Eggert Magnússon, stjórnarformann liðsins, en að annars væri ekkert að frétta af því máli. „Það var ekki rætt neitt um bein félagaskipti. Þeir vita að ég er meiddur og það eina sem hefur hug minn í dag er að fá mig góðan af þessum meiðslum og byrja að spila aftur,“ sagði Eiður Smári.
Hann segist ekki óttast að þurfa að verma varamannabekkinn um of hjá Barcelona. „Metnaður minn hefur alltaf legið það hátt að ég vil reyna fyrir mér á toppnum, og eftir eitt ár er ég ekki tilbúinn að gefa þetta upp á bátinn. Ég hef oft haft tækifæri á ferlinum til að skipta um lið og fá meira borgað en alltaf viljað halda áfram og berjast fyrir mínu,“ sagði Eiður Smári.