Valur vann í dag hollensku meistarana í Den Haag, 5:1, í síðasta leik sínum í fyrstu umferð Evrópukeppninnar, en leikið var í Færeyjum. Margrét Lára Viðarsdóttir skoraði fyrstu tvö mörk leiksins, á 7. og 19. mínútu, og Dagný Brynjarsdóttir kom Val í 3:0 tæpum tíu mínútum fyrir leikhlé. Í seinni hálfleik bætti Nína Ósk Kristinsdóttir við tveimur mörkum áður en þær hollensku skoruðu sitt eina mark.
Valskonur höfðu reyndar fyrir leikinn tryggt sér sæti í annarri umferð riðlakeppninnar, en hún fer fram dagana 11.-16. október. Þar mætir liðið þýsku meisturunum í Frankfurt, enska liðinu Everton og Belgíumeisturum Wezemaal.