Ísland og Kanada gerðu jafntefli, 1:1, í vináttulandsleik sem fram fór á Laugardalsvellinum í kvöld. Gunnar Heiðar Þorvaldsson kom Íslandi yfir á 65. mínútu eftir sendingu frá Baldri Aðalsteinssyni en Oliver Occean jafnaði metin fyrir Kanada á 74. mínútu.
Fylgst var með gangi mála hér á mbl.is og fer textalýsingin hér á eftir:
90+3 Julian De Guzman fær gula spjaldið fyrir brot.
90+2 Oliver Occean með skalla að marki Íslands en Fjalar Þorgeirsson ver örugglega.
89. Kristján Örn Sigurðsson fær gula spjaldið fyrir brot.
88. Þvaga í markteig Kanada eftir hornspyrnu, Helgi Sigurðsson reynir skot en í varnarmann.
Áhorfendur eru 4.359.
86. Grétar Rafn Steinsson sendir fyrir markið og Helgi Sigurðsson skallar en nær ekki krafti og Onstad ver auðveldlega.
84. Skiptingar. Veigar Páll Gunnarsson og Kristján Örn Sigurðsson koma inná fyrir Emil Hallfreðsson og Ívar Ingimarsson.
79. Skipting. Davíð Þór Viðarsson kemur inná fyrir Gunnar Heiðar Þorvaldsson og leikur sinn fyrsta A-landsleik.
77. Jóhannes Karl Guðjónsson leikur upp miðjan völlinn og reynir skot af 30 m færi en framhjá marki Kanada.
74. 1:1. Paul Stalteri, hægri bakvörður Kanada, leikur illa á Hjálmar Jónsson og á hörkuskot að marki Íslands frá vítateig. Fjalar Þorgeirsson slær boltann útí vítateiginn en beint á Oliver Occean sem sendir hann í netið. Fyrsta umtalsverða færi Kanada í leiknum.
72. Skipting. Nik Ledgerwood kemur inná fyrir Tomasz Radzinski.
71. Jóhannes Karl Guðjónsson með langa fyrirgjöf frá hægri kanti, yfir í vítateiginn vinstra megin. Þar kemur Baldur Aðalsteinsson og á góðan skalla rétt yfir þverslá.
70. Emil Hallfreðsson kemst inní sendingu og veður upp völlinn. Sendir á Helga Sigurðsson við vítateiginn. Hann á hörkuskot sem Onstad ver. Boltinn hrekkur út til Emils sem er kominn í færi í vitateignum en skýtur í varnarmann.
69. Ragnar Sigurðsson bjargar í horn á síðustu stundu þegar Ali Gerba félagi hans hjá IFK Gautaorgfær sendingu innfyrir vörn Íslands.
68. Skipting. Helgi Sigurðsson kemur inná fyrir Brynjar Björn Gunnarsson.
65. 1:0. Baldur Aðalsteinsson hirðir boltann strax eftir útspark markvarðar Kanada brunar upp að endamörkum hægra megin og rennir út í teiginn þar sem Gunnar Heiðar Þorvaldsson skorar með viðstöðulausu skoti.
64. Emil Hallfreðsson tekur aukaspyrnuna sem dæmd var en skýtur yfir mark Kanada.
64. Patrice Bernier fær gult spjald fyrir að brjóta á Brynjari Birni sem var í þann veginn að skjóta af 25 m færi.
63. Brynjar Björn Gunnarsson með skalla yfir mark Kanada.
63. Skipting. Hjálmar Jónsson kemur inná fyrir Hermann Hreiðarsson.
61. Aukaspyrna á vænlegum stað, 25 m frá miðju marki Kanada. Jóhannes Karl með fast skot með jörðu en Onstad ver auðveldlega.
60. Skipting. Oliver Occean frá Lilleström kemur inná fyrir Iain Hume, leikmann Leicester.
60. Julian De Guzman í skotfæri á vítateig Íslands en skýtur langt framhjá.
56. Gunnar Heiðar fær langa sendingu upp hægri vænginn frá Grétari Rafni og kemst inní vítateig. Þar sendir hann fyrir markið, Emil Hallfreðsson reynir hælspyrnu en boltinn hafnar í höndum Onstads markvarðar.
56. Ali Gerba með skot af 20 metra færi en yfir mark Íslands.
51. Þung sókn Íslands og spil í vítateignum og við hann. Baldur Aðalsteinsson með skot í varnarmann, boltinn endar að lokum hjá Kára Árnasyni sem á hörkuskot af 18 m færi sem Onstad verður að slá í horn.
50. Jóhannes Karl Guðjónsson með fasta aukaspyrnu af 30 m færi en rétt yfir mark Kanada.
46. Fjalar Þorgeirsson er kominn í mark Íslands í stað Daða Lárussonar. Síðari hálfleikur er hafinn.
45+1 Staðan er 0:0 í hálfleik eftir heldur tilþrifalitlar 45 mínútur. Jafn leikur þar sem Ísland byrjaði af krafti en Kanadamenn hafa stjórnað leiknum meira eftir því sem á hefur liðið.
42. Baldur Aðalsteinsson reynir skot frá vítateigslínu en hátt yfir mark Kanadamanna.
39. Tomasz Radzinski með skot af ríflega 20 m færi með jörðu en Daði er mættur í markhornið og hirðir boltann auðveldlega.
37. Brynjar Björn Gunnarsson í fínu skotfæri 20 m frá marki Kanadamanna en skýtur framhjá.
36. Gunnar Heiðar Þorvaldsson fær sendingu frá Grétari Rafn Steinssyni innfyrir vörnina hægra megin en lendir í of þröngu færi við endamörkin og skýtur beint á Onstad markvörð.
30. Issey Nakajima Farran með hörkuskot að marki Íslands, með jörðu af 25 m færi, en Daði Lárusson ver örugglega.
25. Fyrsta marktilraun Kanadamanna. Iain Hume með skalla eftir fyrirgjöf frá hægri en í varnarmann og í horn.
14. Kári Árnason með skot að marki Kanada af rúmlega 20 m færi eftir aukaspyrnu Jóhannesar Karls og skalla Hermanns Hreiðarssonar, en yfir markið.
50.sek.: Gunnar Heiðar Þorvaldsson með hörkuskot að marki Kanada frá vítateig og Pat Onstad markvörður ver naumlega í horn. Jóhannes Karl Guðjónsson tekur hornspyrnuna og Brynjar Björn Gunnarsson á hörkuskalla á markið sem Onstad ver aftur í horn.
Byrjunarlið Kanada: Pat Onstad (Houston Dynamo), Mike Klukowski (Club Brugge), Andre Hainault (Siad Most), Julian De Guzman (Deportivo La Coruna), Paul Stalteri (Tottenham), Patrice Bernier (Kaiserslautern), Tomasz Radzinski (án félags), Ali Gerba (IFK Gautaborg), Issey Nakajima Farran (Nordsjælland), Daniel Imhof (Bochum), Iain Hume (Leicester).
Lið Íslands er þannig skipað:
Markvörður: Daði Lárusson.
Varnarmenn: Grétar Rafn Steinsson, Ívar Ingimarsson, Ragnar Sigurðsson, Hermann Hreiðarsson.
Miðjumenn: Kári Árnason, Brynjar Björn Gunnarsson, Jóhannes Karl Guðjónsson.
Kantmenn: Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Emil Hallfreðsson.
Framherji: Gunnar Heiðar Þorvaldsson.