Hamar, Hvöt og Víðir upp í 2. deild

Úrslitakeppni 3. deildar karla í knattspyrnu stendur nú yfir og er þremur af fjórum viðureignum lokið. Lið Hamars úr Hveragerði, Hvatar frá Blönduósi, og Víðis úr Garði, hafa öll tryggt sér sæti í 2. deild að ári með því að leggja andstæðinga sína samanlagt í tveimur leikjum.

Hvöt lagði Huginn frá Seyðisfirði 2:1, og samtals 3:2. Víðismenn unnu Tindastól frá Sauðárkróki 2:1, samtals 6:3, og Hamarsmenn gerðu 2:2 jafntefli við Leikni frá Fáskrúðsfirði og unnu samtals 4:3.

Þetta er í fyrsta sinn í sögu Hamars sem liðið kemst upp í 2. deild, og í fyrsta sinn í 20 ár sem Blönduósingar komast í 2. deild.

Síðar í kvöld leika Grótta og BÍ/Bolungarvík seinni leik sinn, en sá fyrri endaði með 4:1 sigri Gróttu fyrir vestan.

Fimm lið fara upp úr 3. deildinni í ár og munu þau lið sem tapa í dag því leika sín á milli um fimmta og síðasta sætið sem gefur þátttökurétt í 2. deild að ári.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert