„Mega ekki spila"

Eftir Guðmund Hilmarsson gummih@mbl.is
,,ÞAÐ liggur fyrir skriflegur samningur okkar við Fjölni að þeir leikmenn sem eru í láni frá okkur hjá Fjölni mega ekki spila gegn FH en þar með er ekki sagt að það verði niðurstaðan þegar hólminn er komið. Það er langt í úrslitaleikinn og við munum bara skoða málin þegar nær dregur leiknum. Það hefur verið gott samband á milli félagana síðustu árin og það kemur vel til greina að setjast niður með forráðamönnum Fjölnis og finna góða lausn á málinu," sagði Pétur Ó. Stephensen, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar FH, í samtali við Morgunblaðið í gær.

FH og Fjölnir eigast við í úrslitum Visa-bikarsins á Laugardalsvelli hinn 6. október og sú staða er upp á borðinu að með Fjölni leika þrír leikmenn sem eru í láni frá FH, Atli Viðar Björnsson, Heimir Snær Guðmundsson og Sigmundur Ástþórsson og allir komu þeir við sögu í mögnuðum sigri Grafarvogsliðsins á Fylki í fyrrakvöld. Atli Viðar skoraði sigurmarkið og var mjög skæður í fremstu víglínu, Heimir fór mikinn á miðjunni og Sigmundur sýndi mikla baráttu þegar hann kom inn á í seinni hálfleik.

Lánssamningur þeirra þriggja við Fjölni gilti fyrst til 30. júní en var framlengdur og rennur sá samningur út þann 15. október eða rúmri viku eftir úrslitaleikinn.

Þjálfari Fjölnis: Virðum þá samninga sem eru til staðar

,,Það er skýrt skrifað á pappíra að þeir megi ekki spila á móti FH og það er sú staða sem er upp á borðinu í augnablikinu. Tíminn verður svo bara að leiða það í ljós hvort náist samkomulag um að þeir fái að spila og auðvitað væri það frábært fyrir okkur," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, við Morgunblaðið.

,,Við virðum hins vegar þá samninga sem eru til staðar og það er ekki við FH að sakast fari svo að þeir spili ekki. Atli Viðar og Heimir hafa gegnt mikilvægum hlutverkum hjá okkur í sumar og vissulega yrði blóðtaka ef þeir spiluðu ekki."

Komið þið ekki til með að banka á dyrnar hjá FH-ingum og reyna til þrautar að fá leikmennina?,,Við komum örugglega til með að ræða við FH-ingana. Það hafa verið góð tengsl á milli félaganna og ég er bjartsýnn á að samskipti félaganna verði góð sem hingað til og það náist góð lausn. Það gæti bara orðið enn meiri hátíð fyrir Hafnfirðingana ef þeir fengju að spila. En núna leggjum við þetta mál til hliðar í einhvern tíma og einbeitum okkur að deildinni," sagði Ásmundur en lærisveinar hans eru á góðri leið með að vinna sér sæti í deild þeirra bestu í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Tryggvi Guðmundsson: Fjölnir á FH mikið að þakka

Tryggvi Guðmundsson, markahrókur FH-inga, liggur sjaldnast á skoðunum sínum og Morgunblaðið leitaði álits hjá honum varðandi þetta mál.

,,Þetta eru allt indælis drengir og auðvitað vill maður að þeir fái að upplifa að spila úrslitaleik í bikarnum. En verða ekki allir að hugsa um sinn hag og til hvers ætti FH að taka áhættu þegar það þarf ekki að gera það? Fólk má ekki gleyma því að Fjölnir á FH mikið að þakka. Liðið er á leið upp í úrvalsdeildina með dyggri aðstoð leikmanna frá FH og þeir væru ekki komnir í úrslitaleikinn nema þeirra hafi notið við. Ég held því að Fjölnismenn ættu frekar að vera sáttir heldur en ósáttir í garð FH. Það byrjaði ekki vel hjá Fjölni í sumar og það fór ekki að ganga vel fyrr en FH-drengirnir mættu á svæðið. En ég geri mér auðvitað grein fyrir að það eru skiptar skoðanir um þetta," sagði Tryggvi við Morgunblaðið. Ólafur Páll Snorrason var einnig í láni frá FH en var kallaður til baka í síðasta mánuði og þá eru Tómas Leifsson og Magnús Ingi Einarsson, fyrirliði Fjölnis, fyrrum leikmenn FH.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert