Spánverjar mörðu svo 1:0-sigur í fyrri leiknum í undankeppni Evrópumótsins sem fram fór í miklu vatnsveðri á Mallorca í lok mars þar sem Andres Iniesta, leikmaður Barcelona, skoraði sigurmarkið níu mínútum fyrir leikslok.
Spánverjar mega alls ekki við því að tapa stigum gegn Íslendingum en þeir eru í harðri baráttu við Svía og N-Íra um tvö efstu sætin sem veita keppnisréttinn í úrslitakeppninni á næsta ári. Svíar tróna á toppnum með 18 stig, N-Írar hafa 16 stig í öðru sæti, Spánverjar eru í þriðja sætinu með 15 stig, Danir í fjórða með 10 stig, Íslendingar og Liechtensteinar hafa fjögur stig og Lettar verma botnsætið með þrjú stig.
"Leikirnir á móti Íslendingum og Lettum eru gríðarlega mikilvægir. Við viljum sigra í báðum leikjunum en það verður hægar sagt en gert. Við lékum ekki vel á Íslandi í fyrra," segir Luis Aragones, hinn litríki landsliðsþjálfari Spánverja.
"Við verðum að vera á varðbergi gagnvart Íslendingunum því við vitum að þeir gefa okkur ekki neitt eins og við sáum á síðasta ári. Það er mikið í húfi fyrir okkur og því mætum við með okkar sterkustu leikmenn. Við verðum að vera vel einbeittir og komast frá þessum leik með þrjú stig," sagði Joaquin við fréttamenn.
"Íslendingar eru á heimavelli og það eitt ætti að gera leikinn erfiðari fyrir okkur. Leikmenn Íslands eru líkamlega sterkir og ef við mætum ekki 100% klárir getum við lent í vandræðum. Við þurfum að koma marki á þá sem fyrst," segir Iniesta.