„Erfitt að eiga við Íslendingana"

Spænska íþróttablaðið Marca fjallar nokkuð um landsleik Íslendinga og Spánverja í netútgáfu sinni. Þar kemur meðal annars fram að Ísland sé einn veikasti mótherjinn sem Spánverjar mæta í riðlinum, og því sé mikilvægt fyrir Spánverja að tryggja sér öll stigin. Spánverjar eiga í harðri baráttu við Svía og Norður-Íra um tvö efstu sætin í riðlinum og því má ekkert fara úrskeiðis hjá þeim í Laugardalnum.

Juan Gutiérrez, miðvörður Real Betis, segir Spánverja þurfa að ná tökum á leiknum snemma. Hann segir enga ástæðu til þess að hengja sig of mikið í fortíðina, en þó sé greinilegt á síðustu tveimur leikjum Spánverja gegn Íslendingum, að þar fari mótherji sem Spánverjar eigi í erfiðleikum með: ,,Við þurfum að ná tökum á leiknum snemma og helst að skora strax. Það er mikilvægt að við stjórnum leiknum og séum rólegir í okkar aðgerðum," er haft eftir Gutiérrez hjá Marca.

Markvörðurinn kunni, Iker Casillas, telur ekkert annað koma til greina fyrir Spánverja en að ná sex stigum gegn Íslandi og Lettlandi. ,,Stigin eru mjög mikilvæg fyrir Spán. Sex stig úr þessum leikjum myndu gefa okkur aukið sjálfstraust fyrir framhaldið í Evrópukeppninni." Hann gerir ekki mikið úr því að Íslendingar hafi veitt Spánverjum mótspyrnu í síðustu tveimur leikjum þjóðanna: ,,Við vorum vissulega í vandræðum gegn Íslandi fyrir ári síðan. En það var vináttuleikur og auk þess á undirbúningstímabili. Í leiknum í mars fengum við fjölda marktækifæra til þess að klára leikinn örugglega en markið kom ekki fyrr en seint í leiknum. En það getur vitaskuld verið erfitt að spila gegn Íslendingum. Sérstaklega er erfitt að eiga við þá í loftinu," sagði Casillas.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert