“Ég er ekki sáttur við eitt stig, við áttum að mínu mati að skora fleiri mörk og tryggja okkur sigur,” sagði Eyjólfur Sverrisson þjálfari íslenska landsliðsins í knattspyrnu eftir 1:1-jafnteflið gegn Spánverjum. Þjálfarinn var virkilega ánægður með fyrri hálfleikinn hjá íslenska liðinu.
“Við vörðumst vel og gáfum fá færi á okkur. Skyndisóknirnar voru vel útfærðar og menn tóku skynsamlegar ákvarðanir. Það eina sem við gátum gert betur var að nýta færin. Þau fengum við. Á lokakaflanum náðum við ekki að spila boltanum þegar við fengum tækifæri til þess. Spánverjarnir voru því að mestu með boltann og pressuðu okkur stíft en það er gríðarlega erfitt að leika gegn þessum leikmönnum enda eru þeir flinkir með boltann. Markið sem við skoruðum var glæsilegt en það var lítið hægt að gera í jöfnunarmarkinu. Þar gerðu Spánverjarnir allt rétt og það var mjög erfitt að verjast þessu.” Eyjólfur sagði að læknir íslenska liðsins hefði ekki viljað gefa Eiði Smára Guðjohnsen leyfi til þess að leika gegn Spánverjum. “Það er nú þannig að ég vil ekki hafa leikmenn í hópnum sem eru ekki 100% tilbúnir í leikinn. Eiður var að mati þeirra sem sjá um hann ekki tilbúinn en ég er vongóður að hann verði með í leiknum gegn N-Írum á miðvikudaginn,” sagði landsliðsþjálfarinn.