„Ég er svekktur yfir að hafa ekki fengið þrjú stig og það segir kannski það sem segja þarf. Fyrst að maður er svekktur yfir að fá ekki þrjú stig gegn Spáni þá er ljóst að við höfum gert eitthvað af viti í þessum leik,“ sagði Hermann Hreiðarsson, fyrirliði íslenska landsliðsins, eftir leikinn við Spánverja nú í kvöld, en Hermann lék í stöðu vinstri bakvarðar og stóð sig frábærlega.
Eyjamaðurinn var sérstaklega ánægður með þá tæplega 9.500 áhorfendur sem mættu á Laugardalsvöllinn í kvöld og studdu sitt lið. „Það var frábært að spila hérna í dag og ég er ánægður með leik liðsins. Ég vil þakka áhorfendum fyrir frábæran leik því þeir voru stórkostlegir í dag. Þegar völlurinn er fullur og stemmningin er góð þá höfum við aldrei tapað hérna, og þessi stuðningur skilar sér alltaf til liðsins,“ sagði Hermann.