Íslendingar og Spánverjar skildu jafnir, 1:1

Gunnar Heiðar Þorvaldsson skýtur að marki Spánverja en David Albelda …
Gunnar Heiðar Þorvaldsson skýtur að marki Spánverja en David Albelda fylgist með. Golli

Ísland og Spánn gerðu jafntefli, 1:1, í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld. Xabi Alonso hjá Spáni var rekinn af velli á 20. mínútu og Emil Hallfreðsson kom Íslandi yfir á 40. mínútu með glæsilegu skallamarki. Spánverjar sóttu af krafti allan síðari hálfleik og Andrés Iniesta náði að jafna metin á 86. mínútu.

Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu sem fer hér á eftir:

Leik lokið, 1:1. Áhorfendur í Laugardalnum, sem voru vel með á nótunum í kvöld, klappa íslenska liðinu lof í lófa vel og lengi.

90+3 Árni Gautur bjargar vel eftir hættulega sendingu frá Sergio Ramos inní vítateiginn.

90+2 Aukaspyrna sem Ísland fær um 40 m frá marki, Emil sendir inní teiginn og Ívar Ingimarsson er hársbreidd frá því að ná að skalla í góðu færi á markteig. 86. 1:1. Andrés Iniesta sleppur innfyrir vörn Íslands og nær að renna boltanum framhjá Árna Gauti og í netið.

83. David Silva skýtur yfir mark Íslands eftir vel útfærða aukaspyrnu frá endamörkum vinstra megin þar sem boltanum var rennt út til hans.

82. Enn þyngist sókn Spánverja sem hafa fengið 7 horn í seinni hálfleik en hafa ekki náð skoti eða skalla að marki eftir eitt einasta þeirra.

79. Baldur Aðalsteinsson kemur inná fyrir Jóhannes Karl Guðjónsson.

78. Þrátt fyrir alla pressuna í seinni hálfleik hafa Spánverjar aðeins átt þrjú markskot eftir hlé og Íslendingar tvö.

76. David Villa með hörkuskot frá vítateig, í varnarmann og rétt framhjá. Horn, sem Hermann skallar frá, einu sinni sem oftar. Mögnuð barátta í íslenska liðinu í kvöld, langt síðan annað eins hefur sést!

71. Grétar Rafn kemst einn innfyrir vörn Spánar eftir sendingu Jóhannesar Karls en missir boltann frá sér og Iker Casillas markvörður nær honum. Grétar liggur eftir árekstur við hann og það er baulað gífurlega á Spánverja fyrir að fara í sókn og gefa ekki kost á aðhlynningu fyrir Grétar, sem er síðan leiddur útfyrir hliðarlínu.

69. Ólafur Ingi Skúlason kemur inná fyrir Arnar Þór Viðarsson og Luis Garcia kemur inná fyrir Joaquin.

65. Jóhannes Karl með sendingu innfyrir vörn Spánar á Gunnar Heiðar sem kemst einn gegn Casillas, sem ver skot hans glæsilega með úthlaupi. Þarna var flott færi til að komast í 2:0..!

64. Gífurlega þung pressa Spánverja en íslenska liðið verst af miklum krafti í eigin vítateig og Spánverjar ná ekki skotum á markið.

62. Góð sókn Íslands og Grétar Rafn með þrumuskot að marki frá vítateigslínu, aðeins til hægr, rétt yfir markvinkil Spánverja!

62. David Silva í ágætu skotfæri 20 m frá marki, eftir aukaspyrnu, en þrumar hátt yfir mark Íslands.

60. Ragnar Sigurðsson fær gula spjaldið fyrir að brjóta á David Silva.

57. Fernando Torres fer af velli og Andrés Iniesta kemur í hans stað.

55. Spánverjar hafa gert harða hríð að marki Íslands en ekki komið sér í opin færi þó nokkrum sinnum hafi munað litlu. Sókn þeirra þyngist stöðugt.

53. Á vef Barcelona í kvöld kemur fram að samkomulag hafi verið gert milli félagsins og KSÍ um að Eiður tæki ekki þátt í leiknum í kvöld en kæmi til greina í landsleikinn gegn Norður-Írum á miðvikudag.

48. Joaquin þrumar að marki Íslands af 20 m færi en framhjá.

46. Síðari hálfleikur er hafinn.

45+1 Xavi með aukaspyrnu af 30 m færi, boltinn hafnar í öruggum höndum Árna Gauts og síðan flautar Wolfgang Stark frá Þýskalandi til hálfleiks. Stórgóð frammistaða íslenska liðsins í fyrri hálfleik.

42. Sergio Ramos skallar yfir mark Íslands eftir hornspyrnu.

40. 1:0. Glæsileg sókn sem Kristján Örn hóf með því að vinna boltann við eigin vítateig. Óð fram, og að lokum var það Jóhannes Karl sem þrumaði boltanum fyrir markið frá hægri. Emil Hallfreðsson var vinstra megin í vítateignum, kastaði sér fram og skoraði með þrumuskalla í markhornið fjær, óverjandi og glæsilegt.

38. Casillas markvörður bjargar á síðustu stundu með því að slá boltann burt. Ramos skallaði til hans en Gunnar Heiðar var við það að komast inní sendinguna.

36. Torres með mikinn sprett og þrumuskot af 20 m færi sem Árni Gautur ver mjög vel, í horninu niður, í horn.. Eftir hornið skallar Sergio Ramos yfir mark Íslands.

36. Jóhannes Karl fær gula spjaldið fyrir brot og þar með er hann kominn í bann sem hann tekur út gegn Norður-Írum á miðvikudag.

35. Leik Svía og Dana er lokið með 0:0 jafntefli.

32. Sergio Ramos með hættulegan skalla eftir aukaspyrnu frá Xavi. Árni Gautur ver vel, niðri, og Hermann kemur boltanum í burtu.

29. Kristján Örn með langa sendingu frá hægri inní vítateig Spánverja. Beint á Gunnar Heiðar sem á góðan skalla en Casillas ver vel.

26. David Albelda kemur inná fyrir Mariano Pernia hjá Spánverjum. Væntanlega taktíst breyting þar sem þeir eru manni færri.

23. Spánverjar með aukaspyrnu á hættulegum stað, rétt utan vítateigs. Xavi skýtur í varnarvegginn.

21. Ísland fær sannkallað dauðafæri. Jóhannes Karl veður í gegnum spænsku vörnina og inní teig eftir spil við Gunnar Heiðar en rennir boltanum hárfínt framhjá stönginni.

20. Rautt spjald á Xabi Alonso, leikmann Liverpool, sem virðist hafa sparkað í Arnar Þór Viðarsson þegar boltinn var víðsfjarri. Arnar liggur meiddur eftir og þarf aðhlynningu.

17. Emil með stórhættulega fyrirgjöf frá vinstri, inní markteig, þar sem varnarmaður bjargar naumlega í horn áður en Gunnar Heiðar kemst í boltann. Ísland hefur pressað stíft undanfarnar mínútur og Spánverjar ekki komist yfir miðju um skeið.

9. Jóhannes Karl tekur aukaspyrnu við hliðarlínu hægra megin, þrumar lágum bolta inní vítateig Spánverja, Gunnar Heiðar tekur hann viðstöðulaust, hárfínt framhjá stöng.!

8. Gult spjald á Mariano Pernia sem tæklar Grétar Rafn gróflega úti á hliðarlínu.

3. Kári Árnason stöðvar Torres sem er að sleppa innfyrir vörnina, en nógu snemma til að fá ekki spjald. Aukaspyrna 25 m frá marki Íslands. David Villa með hörkuskot í hornið niðri en Árni Gautur ver vel í horn.

2. Grétar Rafn með sendingu innfyrir vörn Spánar á Gunnar Heiðar en Casillas markvörður kemur útúr teignum og hreinsar í innkast.

1. Leikurinn er hafinn, eftir minningarathöfn um Antonio Puerta, einnar mínútu þögn.

19:53: Liðin ganga inná völlinn. Spánverjarnir eru allir í treyjum með nafni Antonio Puerta framaná og númerið 15 á bakinu. Puerta lést sem kunnugt er á dögunum af völdum hjartaáfalls í leik með Sevilla.

19:45: Í Laugardalnum er ausandi rigning, nokkurnveginn logn, og 11 stiga hiti. Vilhjálmur Vilhjálmsson borgarstjóri í Reykjavík er þessa stundina að flytja ávarp, undir regnhlíf, í tilefni af vígslu nýrra mannvirkja á Laugardalsvelli, og afhendir Geir Þorsteinssyni formanni KSÍ þau formlega til reksturs.

19:40: Staðan er enn 0:0 hjá Svíum og Dönum eftir rúmlega 50 mínútna leik.

19:32: Lið Spánverja: 1 Iker Casillas, 15 Sergio Ramos, 4 Carlos Marchena, 20 Juanito, 3 Mariano Pernia, 17 Joaquin, 14 Xabi Alonso, 8 Xavi, 21 David Silva, 9 Fernando Torres, 7 David Villa.
Varamenn: Pepe Reina, Joan Capedevila, Pablo Ibanez, David Albeida, Miguel Angulo, Andrés Iniesta, Luis Garcia.

19.30: Eiður Smári er ekki í hópnum en varamenn Íslands eru Daði Lárusson, Sverrir Garðarsson, Baldur Aðalsteinsson, Hjálmar Jónsson, Ólafur Ingi Skúlason, Veigar Páll Gunnarsson og Ármann Smári Björnsson.

19.27: Leikmenn liðanna ættu að kannast við aðstæður eins og þær sem eru á Laugardalsvellinum í kvöld. Þar hellirignir á liðin tvö sem hita upp en fyrri leikur þeirra fór fram í ausandi rigningu á Mallorca í mars.

Leikur Svía og Dana hófst í Svíþjóð kl. 18.30.

Sex leikmenn íslenska liðsins í kvöld eru með eitt gult spjald á bakinu og fara í bann fyrir leikinn gegn Norður-Írum ef þeir fá gult spjald í kvöld. Það eru Jóhannes Karl, Ívar, Grétar Rafn, Hermann, Emil og Arnar Þór.

Lettar sigruðu Norður-Íra í dag, 1:0, og þar með er staða Spánverja mjög vænleg, takist þeim að sigra Íslendinga í kvöld.

Svíar eru með 18 stig, Norður-Írar 16, Spánverjar 15, Danir 10, Lettar 6, Íslendingar 4 og Liechtensteinar 4 stig.

Lið Íslands: Árni Gautur Arason - Kristján Örn Sigurðsson, Ragnar Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Hermann Hreiðarsson (fyrirliði) - Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason, Jóhannes Karl Guðjónsson, Arnar Þór Viðarsson, Emil Hallfreðsson - Gunnar Heiðar Þorvaldsson.

Andrés Iniesta, markaskorari Spánverja, í baráttu við Kára Árnason.
Andrés Iniesta, markaskorari Spánverja, í baráttu við Kára Árnason. Golli
Íslenska liðið stillir sér upp fyrir leikinn.
Íslenska liðið stillir sér upp fyrir leikinn. mbl.is/Golli
Emil Hallfreðsson skoraði glæsilegt skallamark á 40. mínútu.
Emil Hallfreðsson skoraði glæsilegt skallamark á 40. mínútu. Ómar Óskarsson
Hermann Hreiðarsson er fyrirliði í kvöld og reyndasti leikmaður Íslands.
Hermann Hreiðarsson er fyrirliði í kvöld og reyndasti leikmaður Íslands. Brynjar Gauti
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka