"Ég á von á því að Eiður Smári verði í hópnum á morgun og taki einhvern þátt í leiknum gegn Norður-Írum en hann verður ekki í byrjunarliðinu," sagði Eyjólfur Sverrisson landsliðsþjálfari í knattspyrnu á blaðamannafundi í dag en leikur Íslands og Norður-Írlands í undankeppni EM fer fram á Laugardalsvellinum á morgun kl. 18.05.
Eiður Smári var ekki í leikmannahópnum gegn Spánverjum á laugardagskvöldið eftir að læknar Barcelona og íslenska landsliðsins voru ásáttir um að það væri of snemmt fyrir hann en Eiður er að komast í gang á ný eftir meiðsli í hné.
"Ég vonast eftir því að Eiður geti hjálpað okkur á einhverju stigi í leiknum en það er best að fullyrða ekkert um það," sagði Eyjólfur ennfremur.
Landsliðsþjálfarinn sagði á fundinum að hann ætti eftir að skoða leik Norður-Íra gegn Lettum sem fram fór í Ríga síðasta laugardag en Lettar unnu leikinn, 1:0.
"Ég mun fara yfir hann í dag og ákveð í framhaldi af því hvernig leikaðferð við beitum gegn Norður-Írunum á morgun. Ég er búinn að skoða næsta leik þeirra á undan, gegn Liechtenstein, en þar höfðu þeir yfirburði og unnu öruggan sigur, 3:1.
Við vitum að þeir koma dýrvitlausir í leikinn gegn okkur því þeir verða að vinna til að vera áfram með í toppbaráttunni í riðlinum. Ég býst við að þeir byrji leikinn með miklum látum og pressu og sínum hefðbundna breska fótbolta. Það verður því mikil barátta og nánast járn í járn frá fyrstu mínútu," sagði Eyjólfur Sverrisson, sem vildi sem minnst ræða leikinn við Spánverja á laugardaginn.
"Sá leikur er búinn, hann tilheyrir sögunni, og það er leikurinn á morgun sem skiptir öllu máli," sagði landsliðsþjálfarinn.