Nú er það orðið endanlega ljóst að hann og Atli Viðar Björnsson, sem báðir eru í láni hjá Fjölni frá FH-ingum, fá ekki að spila úrslitaleikinn gegn Íslandsmeisturum FH í Visa-bikarnum sem fram fer á Laugardalsvelli hinn 6. október. Stjórn knattspyrnudeildar FH ákvað á fundi að gerður samningur milli FH og Fjölnis skuli standa en ákvæði voru í lánssamningum þeirra Heimis Snæs og Atla Viðars um að þeir mættu ekki spila gegn FH. Ekkert slíkt ákvæði er hins vegar í samningi Sigmundar Péturs Ástþórssonar, sem einnig er í láni frá FH, og hann getur því tekið þátt í úrslitaleiknum.
,,Ég get svo sem skilið FH-ingana. Þeir eru í fullum rétti í þessu máli enda var samið um þetta en það breytir því ekki að ég er ekki ánægður með að fá ekki að taka þátt í leiknum og ekki síst í ljósi þess að ég er bara samningsbundinn FH út þetta tímbil og FH hefur ekki sýnt neinn áhuga á að halda mér. Það verða blendnar tilfinningar hjá manni að fylgjast með leiknum úr áhorfendastúkunni," sagði Heimir Snær í samtali við Morgunblaðið.
Heimir, sem er sonur Guðmundar Árna Stefánssonar sendiherra og formanns knattspyrnudeildar FH á árunum 1999-2005, er fæddur og uppalinn FH-ingur en hefur leikið sem lánsmaður bæði með Fjölni og ÍBV.
Morgunblaðið hefur heimildir fyrir því að ekki sé sátt um þessa niðurstöðu hjá fyrrum formanni knattspyrnudeildarinnar.
Það verður skarð fyrir skildi hjá Fjölnismönnum að spila án þeirra Heimis og Atla. Heimir leikur stórt hlutverk í miðjuspili liðsins og Atli Viðar er baneitraður framherji sem tryggði Fjölnismönnum sigurinn frækna á Fylkismönnum í undanúrslitaleiknum með sigurmarki í framlengingu.