Ísland sigraði Norður-Írland, 2:1, í undankeppni EM í knattspyrnu á Laugardalsvellinum í kvöld og vann þar með sinn fyrsta sigur síðan Norður-Írar voru lagðir að velli í Belfast í september á síðasta ári. Ármann Smári Björnsson kom Íslandi yfir á 6. mínútu en David Healy jafnaði úr vítaspyrnu á 71. mínútu. Norður-Írar gerðu síðan sjálfsmark á 89. mínútu eftir fyrirgjöf Grétars Rafns Steinssonar.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is.
89. 2:1. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson vinnur boltann og kemst inní vítateiginn hægra megin. Sendir fyrir markið, varnarmaður kemst fyrir en Grétar Rafn Steinsson sendir boltann fyrir aftur mark Norður-íra frá hægri og á markteignum fer boltinn af varnarmanni í netið. Líklega sjálfsmark en Eiður Smári var nálægt boltanum og pressaði varnarmanninn.
87. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson kemur inná fyrir Kára Árnason.
86. Ólafur Ingi Skúlason með skot yfir mark Norður-íra eftir aukaspyrnu Ragnars Sigurðssonar frá vinstri og skalla Ívars Ingimarssonar.
86. Chris Baird fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Eiði Smára rétt framan við miðjuna.
83. Steve Jones kemur inná fyrir Chris Brunt.
79. Grant McCann kemur inná hjá Norður-Írum fyrir Steven Davis. Hjá Íslandi kemur Ólafur Ingi Skúlason inná fyrir Gunnar Heiðar Þorvaldsson.
78. Áhorfendur í kvöld eru 7.727.
77. Gunnar Heiðar í færi við markteig eftir langt innkast en Taylor markvörður lokar á hann.
75. Norður-írsku áhorfendurnir hafa heldur betur tekið gleði sína á ný og hvetja sína menn af miklum móð.
71. 1:1. Vítaspyrna, Kári Árnason brýtur á David Healy hægra megin í vítateig Íslands. Healy tekur spyrnuna sjálfur og skorar af öryggi.
69. Árni Gautur þarf að slá boltann yfir þverslána eftir að Keith Gillespie átti fyrirgjöf sem sveigði innað markinu. Eftir hornið skýtur Michael Duff af markteig en beint í fangið á Árna Gauti. Pressa Norður-Íra hefur verið nánast látlaus í 10 mínútur.
68. Chris Brunt fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Eiði Smára Guðjohnsen sem hafði sent boltann frá sér á eigin vallarhelmingi.
65. Hermann Hreiðarsson fær gula spjaldið eftir að hafa tekið innkast. Ekki gott að átta sig á ástæðunni.
62. Chris Brunt með hættulega hornspyrnu frá hægri og Arnar Þór Viðarsson skallar frá á marklínunni vinstra megin. Önnur hornspyrna og Árni Gautur nær að slá boltann í innkast. Þriðja hornið kemur í kjölfarið en hættunni bægt frá í bili.
61. Norður-Írar með aukaspyrnu á hættulegum stað, hægra megin vítateigsins, rétt utan hans. Chris Brunt reynir skot en það er slakt og varnarmenn hreinsa í innkast.
59. Keith Gillespie kemst að endamörkum Íslands hægra megin og leikur innað markinu en þrumar boltanum í hliðarnetið.
56. Norður-Írar með aukaspyrnu 25 m frá marki Íslands. David Healy spyrnir en vel yfir markið.
53. Eiður Smári Guðjohnsen kemur inná fyrir Ármann Smára Björnsson.
52. Ármann Smári reynir skot af 25 m færi en nokkuð framhjá marki Norður-íra. Eiður Smári hefur hitað upp um skeið og útlit fyrir að hann sé á leið inná völlinn.
50. Chris Brunt með gífurlegan þrumufleyg af 30 m færi, boltinn smellur í þverslá íslenska marksins og kastast útfyrir vítateig. Þar kemur David Healy en á skot beint á Árna Gaut. Ótrúlegt skot hjá Brunt!
49. Norður-írsku áhorfendurnir voru ansi þögulir í fyrri hálfleiknum, allt frá því Ísland skoraði, en þeir hafa tekið aðeins við sér nú í upphafi síðari hálfleiks. Íslensku stuðningsmennirnir hafa verið öllu öflugri til þessa.
47. Kári Árnason með skot að marki af 20 m færi eftir ágæta sókn en Maik Taylor ver örugglega.
46. Síðari hálfleikur er hafinn og Ísland leikur í átt að Laugardalshöllinni.
45+1 Flautað til hálfleiks, Ísland er yfir, 1:0, með marki Ármanns Smára Björnssonar á 6. mínútu. Norður-Írar hafa verið meira með boltann í fyrri hálfleik og fengið fleiri færi en íslenska liðið hefur lagt áherslu á að verjast og beita skyndisóknum.
45. Hermann með skalla framhjá marki Norður-Íra eftir fyrirgjöf Kristjáns Arnar Sigurðssonar frá hægri.
43. Danir eru 4:0 yfir í hálfleik gegn Liechtenstein. Nordstrand skoraði annað mark sitt á 36. mínútu.
41. Warren Feeney, sóknarmaður Norður-Íra, fær gula spjaldið fyrir að tækla Árna Gaut sem var að hreinsa frá marki eftir sendingu Hermanns Hreiðarssonar til baka.
39. Veðrið tekur stöðugum breytingum. Hætt að rigna á ný og jafnvel talið að glitti í sól..!
34. Michael Duff sendir fyrir mark Íslands frá vinstri og Jonny Evans skallar yfir af markteig, aðþrengdur af varnarmönnum Íslands.
31. Aukaspyrna frá vinstri og sending fyrir mark Íslands, Árni Gautur reynir að slá boltann frá en missir af honum. Jonny Evans virðist með opið markið fyrir framan sig en sendir boltann hátt yfir markið!
30. Það er farið að rigna aftur og Ísland leikur undan vindinum og regninu.
28. Hættuleg sókn Norður-Íra, Sammy Clingan fær boltann í ágætu færi á miðri vítateigslínu og á skot en rétt framhjá stönginni hægra megin. Besta færi þeirra til þessa.
25. Íslenska liðinu gengur full erfiðlega að halda boltanum og Norður-Írar ráða meira ferðinni á vellinum, án þess að hafa komist eitthvað áleiðis undanfarnar 10 mínútur.
19. Ármann Smári fær gula spjaldið fyrir brot á Jonny Evans, leikmanni Manchester United og hægri bakverði Norður-Íra.
16. Íslendingurinn Jon Dahl Tomasson er búinn að koma Dönum í 3:0 gegn Liechtenstein með marki á 18. mínútu. Veisla þar.
15. Jonny Evans skallar að marki eftir hornspyrnu, í varnarmann Íslands og í horn.
14. Hættuleg sending frá vinstri innað marki Íslands en Hermann Hreiðarsson skallar yfirvegað í horn, með tvo Norður-Íra í kringum sig.
10. Danir eru komnir í 2:0 gegn Liechtenstein. Martin Laursen skoraði á 12. mínútu.
6. 1:0. Gunnar Heiðar sleppur uppað endamörkum hægra megin og sendir boltann út í vítateiginn þar sem Ármann Smári tekur hann viðstöðulaust og hamrar uppí þaknetið!
2. Warren Feeney með hættulegt skot sem Árni Gautur ver í markhorninu niðri og slær boltann frá.
18:06: Danir eru þegar komnir yfir gegn Liechtenstein. Nordstrand skoraði á 3. mínútu.
18:05: Leikurinn er hafinn.
18:04: Liðin eru komin á miðju vallarins þá tekur við einnar mínútu þögn til að minnast Ásgeirs Elíassonar, fyrrum landsliðsþjálfara Íslands, sem lést síðasta sunnudag, 57 ára að aldri.
17:58: Liðin ganga inná völlinn, sjö mínútur í leik. Kynnir leiksins boðaði að nú myndi Kolbeinn Ketilsson syngja norður-írska þjóðsönginn. Svo hljómaði að sjálfsögðu hinn kunni breski þjóðsöngur: God Save The Queen, enda er Norður-Írland hluti Bretaveldis!
17:53: Leikur Danmerkur og Liechtenstein í riðli Íslands hefst klukkan 18.00, fimm mínútum á undan leiknum hér á Laugardalsvelli. Klukkan 20 hefst síðan viðureign Spánverja og Letta í Oviedo.
17:50: Rigningin er gengin niður og komið ágætis fótboltaveður í Laugardalnum. Gola, en völlurinn að sjálfsögðu mjög blautur eftir úrhellið. Hitinn er 12 stig.
17.34: Norður-írskir stuðningsmenn eru margir á vellinum, á annað þúsund, og löngu mættir og byrjaðir að hvetja sína menn í upphituninni. Þeir eru mikið fleiri en íslensku áhorfendurnir enn sem komið er, enda hálftími í leik ennþá.
17.30: Dómarar kvöldsins koma frá Rússlandi. Dómari er Júrí Baskakov en aðstoðardómarar þeir Tihon Kalugin og Anton Averianov. Fjórði dómari er Stanislav Sukhina. Eftirlitsmaður dómara er Rolf Haugen frá Noregi og eftirlitsmaður UEFA er Guido Cornella frá Sviss.
17:28: Rétt er að taka fram að mbl.is er með aðstöðu innandyra til að lýsa leiknum frá Laugardalsvellinum í kvöld en ekki úti í rigningunni eins í leiknum við Spán!
17:26: Með tilkomu Ármanns Smára Björnssonar í byrjunarlið Íslands er ljóst að Eyjólfur Sverrisson ætlar að breyta leikaðferðinni í 4-4-2 og setja Ármann í framlínuna með Gunnari Heiðari Þorvaldssyni. Ármann hefur skorað grimmt fyrir Brann í Noregi að undanförnu, eftir að hann var settur í framlínu liðsins. Ármann kemur fyrir Jóhannes Karl Guðjónsson sem er í leikbanni í kvöld.
Lið Norður-Írlands: 1 Maik Taylor (Birmingham) 2 Chris Baird (Fulham), 3 George McCartney (West Ham), 4 Michael Duff (Burnley), 5 Jonny Evans (Man.Utd), 6 Sammy Clingan (Nott.Forest), 7 Keith Gillespie (Sheff.Utd), 8 Steven Davis (Fulham), 9 David Healy (Fulham), 10 Warren Feeney (Cardiff), 11 Chris Brunt (WBA).
Varamenn: 12 Alan Mannus (Linfield), 13 Ivan Sproule (Bristol City), 14 Grant McCann (Barnsley), 15 Steve Jones (Burnley), 16 Stephen Craigan (Motherwell), 17 Kyle Lafferty (Burnley), 18 Stuart Elliott (Hull).
Íslenska liðið er þannig skipað:
Markvörður: Árni Gautur Arason.
Varnarmenn: Kristján Örn Sigurðsson, Ívar Ingimarsson, Ragnar Sigurðsson, Hermann Hreiðarsson.
Miðjumenn: Grétar Rafn Steinsson, Kári Árnason, Arnar Þór Viðarsson, Emil Hallfreðsson.
Sóknarmenn: Gunnar Heiðar Þorvaldsson, Ármann Smári Björnsson.
Á bekknum eru Eiður Smári Guðjohnsen, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Daði Lárusson, Ólafur Ingi Skúlason, Baldur Ingimar Aðalsteinsson, Veigar Páll Gunnarsson og Sverrir Garðarsson.