Sigurganga Fjölnis heldur áfram

Fjölnismenn hafa haft ástæðu til að fagna á síðustu vikum.
Fjölnismenn hafa haft ástæðu til að fagna á síðustu vikum. Heimasíða Fjölnis

Fjölnir hélt sigurgöngu sinni áfram í 1. deild karla í knattspyrnu í dag. Fjölnismenn lögðu topplið Þróttara, 3:1, og hafa nú leikið 12 leiki í röð án taps. Þróttarar verða því að bíða um sinn með að fagna sæti í Landsbankadeildinni en liðinu dugði jafntefli til að tryggja sér sæti á meðal þeirra bestu. Fjölnismenn komust í annað sætið og eru á góðri leið með að vinna sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn í sögu félagsins.

Pétur Georg Markan, Ómar Hákonarson og Atli Viðar Björnsson skoruðu mörk Fjölnis en Hjörtur Júlíus Hjartarson skoraði fyrir Þrótt.

Fjarðabyggð hafði betur gegn Víkingi Ólafsvík, 1:0, þar sem Jón Gunnar Eysteinsson skoraði beint úr aukaspyrnu þegar komið var framyfir venjulegan leiktíma.

Stjarnan vann mikilvægan sigur í botnbaráttunni með því að leggja KA að velli, 2:0, þar sem Halldór Orri Björnsson og Magnús Björgvinsson skoruðu. Stjarnan hafði aðeins fengið eitt stig í síðustu 10 leikjunum.

Reynir Sandgerði og Njarðvík gerðu 1:1 jafntefli, sem þýðir að KA er í botnsætinu þegar tvær umferðir eru eftir. Bæði lið eru með 16 stig en Njarðvík er með 17 stig.

Leikur Þórs og Leiknis R. hefst klukkan 16 en fresta þurfti viðureign Grindavíkur og ÍBV en Eyjamenn halda enn í vonina um að verða í einu af þremur efstu sætunum og tryggja sér þar með sæti í Landsbankadeildinni.

Þróttur hefur 44 stig í efsta sæti eftir 20 leiki, Fjölnir hefur 42 eftir 19 leiki, Grindavík hefur 41 eftir 18 leiki og ÍBV 25 eftir 19 leiki. Reynir er á botninum með 16 stig, KA hefur einnig 16 stig, Njarðvík 17 og Leiknir 18.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert