Djurgården, undir stjórn Sigurðar Jónssonar, tók enn á ný forystuna í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í gærkvöld með því að gera jafntefli, 1:1, við Trelleborg á heimavelli. Úrslitin eru þó vonbrigði fyrir Sigurð og hans menn því Trelleborg sat á botni deildarinnar fyrir leikinn og Djurgården átti möguleika á að ná þriggja stiga forystu. Í staðinn er liðið aðeins stigi á undan Elfsborg og AIK þegar fimm umferðum er ólokið. Sölvi Geir Ottesen var ekki í leikmannahópi Djurgården í gær en Mattias Jonsson skoraði jöfnunarmark liðsins skömmu fyrir leikslok.