Fjölnir úr Grafarvogi getur í kvöld tryggt sér sæti í efstu deild karla í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögunni. Liðin í öðru og þriðja sæti 1. deildar, Grindavík og Fjölnir, mætast í Grindavík klukkan 17.30 og fari Fjölnismenn með sigur af hólmi eru þeir komnir upp í úrvalsdeildina þó tveimur umferðum sé ólokið. Vinni Grindvíkingar leikinn, standa þeir mjög vel að vígi og þurfa aðeins eitt stig til viðbótar til að fara upp.
Þróttarar eru efstir með 44 stig. Þeir eiga eftir að mæta ÍBV á heimavelli og Reyni S. á útivelli og nægir eitt stig enn. Því geta þeir náð þegar þeir taka á móti ÍBV í 21. umferðinni á laugardaginn.
Fjölnir er í öðru sæti með 42 stig og fyrir utan leikinn í kvöld á Grafarvogsliðið eftir að leika við Þór á heimavelli og ÍBV á útivelli. Fjölnir þarf þrjú stig til að gulltryggja sig upp.
Grindavík er í þriðja sæti með 41 stig og eftir leikinn við Fjölni fær liðið Reyni S. í heimsókn og mætir loks Fjarðabyggð á útivelli. Grindvíkingar þurfa fjögur stig enn til að vera öruggir upp. Vinni þeir í kvöld, gulltryggja þeir sig upp með stigi gegn Reyni á heimavelli á laugardaginn.
ÍBV er í fjórða sæti með 38 stig og á eftir að leika við Þrótt á útivelli og Fjölni á heimavelli. Eyjamenn verða að vinna báða leikina og treysta um leið á að Grindavík eða Þróttur nái ekki 45 stigum eða Fjölnir nái ekki 44 stigum.