Brasilía lék Bandaríkin grátt á HM kvenna

Markadrottningin Marta fagnar öðru marka sinna í dag.
Markadrottningin Marta fagnar öðru marka sinna í dag. Reuters

Brasilía leikur til úrslita um heimsmeistaratitil kvenna í knattspyrnu gegn Þýskalandi næsta sunnudag eftir að hafa unnið óvæntan stórsigur á liði Bandaríkjanna, 4:0, í undanúrslitunum í dag, í Hangzhou í Kína.

Leslie Osborne kom brasilíska liðinu á bragðið þegar hún skoraði sjálfsmark á 20. mínútu og Marta bætti við marki, 2:0, sjö mínútum síðar. Ekki bætti úr skák fyrir bandaríska liðið að Shannon Boxx fékk sitt annað gula spjald í uppbótartíma í fyrri hálfleik og var rekin af velli.

Manni fleiri voru brasilísku konurnar ekki í neinum vandræðum með að innbyrða sigurinn. Cristiane skoraði, 3:0, á 56. mínútu og Marta skoraði sitt annað mark, 4:0, á 79. mínútu. Hún er þar með markahæst í keppninni með 7 mörk, tveimur meira en Cristiane og hin norska Ragnhild Gulbrandsen sem hafa gert 5 mörk hvor.

Það verða því Þýskaland og Brasilía sem leika um gullið á sunnudaginn en á undan spila Bandaríkin og Noregur um bronsið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert