Veigar Páll Gunnarsson framherji norska liðsins Stabæk var ósáttur Jan Jönsson, þjálfara liðsins, eftir að Veigar var tekinn af leikvelli á 57. mínútu í gær gegn Lyn á útivelli. Staðan var 2:0 fyrir Lyn þegar Veigari var skipt útaf og kom ákvörðun þjálfarans flestum á óvart þar sem að Veigar er á meðal markahæstu leikmanna deildarinnar og að auki er hann á meðal efstu þegar kemur að stoðsendingum. Jönsson sagði í viðtali við Verdens Gang í gær að í 9 af 10 leikjum væri Veigar á meðal bestu leikmanna deildarinnar en í leiknum gegn Lyn hafi íslenski landsliðsmaðurinn ekki verið með hugann við efnið.
"Veigar mætir til leiks með réttu hugarfari í 9 af 10 leikjum okkar en í þessum leik var hann ekki með rétt hugarfar og mér fannst því rétt að skipta honum útaf," sagði Jönsson. Veigar yfirgaf Ullevaal leikvanginn í Osló áður en leikurinn var búinn og gátu norskir fréttamenn ekki rætt við hann eftir leikinn. Daniel Nannskog framherji Stabæk sagði eftir 3:2-tap liðsins gegn Lyn að leikmenn Stabæk væru of uppteknir af því hvað þeir væru sjálfir að gera inni á vellinum og liðsheildin væri ekki sú sama og áður.
Stabæk er nánast úr leik í baráttunni um meistaratitilinn eftir tapið og fyrir fjórum dögum tapaði Stabæk í undanúrslitum bikarkeppninnar gegn Lilleström.