Engin meiðsli í herbúðum FH og Fjölnis

Fjölnismenn mæta FH-ingum í úrslitaleik Visa-bikarsins á laugardaginn.
Fjölnismenn mæta FH-ingum í úrslitaleik Visa-bikarsins á laugardaginn. Árni Torfason

Lið FH og Fjölnis búa sig að krafti undir úrslitaleikinn í Visa-bikarnum sem fram fer á laugardaginn og í dag var haldinn blaðamannafundur í húsakynnum KSÍ vegna úrslitaleiksins.

Hvorugt lið hefur hampað bikarnum áður en FH-ingar eru að leika til úrslita í þriðja sinn en Fjölnismenn, sem á dögunum tryggðu sér sæti í efstu deild í fyrsta sinn, hafa aldrei náð svona langt í bikarnum.

,,Þetta er mikið ævintýri fyrir okkur Fjölnismenn og það ríkir að vonum mikil stemning í Grafarvoginum fyrir leiknum. Við ætlum að gera meira úr honum en hefðbundnum leik og alla vikuna verður ýmislegt í gangi hjá okkur utan hefðbundinna æfinga. Ástandið á hópnum er gott en við söknum mikið tveggja leikmanna sem við erum með í láni frá FH (Atli Viðar Björnsson og Heimir Guðmundsson) en að öðru leyti eru allir klárir í verkefnið sem við vitum að verður mjög erfitt," sagði Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnismanna.

,,Okkar undirbúningur verður hefðbundinn. Við ætlum að vísu á hótel á föstudagskvöldið og stilla þar saman strengi okkar. Ástandið á hópnum er gott. Það eru engin meiðsli og við förum í þennan leik til þess að vinna og ekkert annað," sagði Ólafur Jóhannesson, þjálfari FH-inga.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert