FH-ingar urðu í dag bikarmeistarar karla í knattspyrnu í fyrsta skipti í sögunni þegar þeir unnu nauman sigur á 1. deildarliði Fjölnis, 2:1, í framlengdum úrslitaleik á Laugardalsvellinum. Matthías Guðmundsson skoraði bæði mörk FH en Gunnar Már Guðmundsson svaraði fyrir Fjölni úr vítaspyrnu og jafnaði þá leikinn, fimm mínútum fyrir leikslok.
Eftir Víði Sigurðsson
vs@mbl.is
Matthías kom FH yfir á 17. mínútu eftir sendingu Tryggva Guðmundssonar og lengi vel stefndi allt í að það myndi nægja Hafnarfjarðarliðinu til sigurs. En þegar 5 mínútur voru eftir krækti Davíð Þór Rúnarsson í vítaspyrnu fyrir Fjölni og Gunnar Már jafnaði metin, 1:1, við gífurlegan fögnuð stuðningsmanna Fjölnis sem voru fjölmennir og háværir í Laugardalnum í dag.
Úrslitin réðust svo á lokamínútunni í fyrri hálfleik framlengingarinnar. Tryggvi komst þá að endamörkum vinstra megin og lyfti boltanum laglega inní markteiginn þar sem Matthías kom á ferðinni og skallaði hann í netið, 2:1. Hetjuleg barátta Fjölnismanna dugði ekki til og Skagamenn fagna þessum úrslitum með FH-ingum því þau tryggja þeim sæti í UEFA-bikarnum næsta sumar.
Fylgst var með leiknum í beinni textalýsingu hér á mbl.is og fer hún hér á eftir:
114. Gunnar Már Guðmundsson með fast skot af rúmlega 20 m færi en yfir mark FH.
112. Skipting hjá FH. Matthías Guðmundsson, markaskorarinn, fer af velli og Atli Guðnason kemur í hans stað.
111. Snögg sókn FH-inga, Matthías Guðmundsson sendir á Sigurvin Ólafsson sem á fast skot frá vítateig en rétt framhjá stönginni vinstra megin.
105. 2:1, Matthías Guðmundsson skorar sitt annað mark. Tryggvi Guðmundsson komst að endamörkum vinstra megin og lyfti boltanum laglega inní markteiginn þar sem Matthías kom á ferðinni og skoraði með skalla. Fjölnismenn byrja á miðju og fyrri hálfleikur framlengingar er síðan flautaður af.
103. Stórhættuleg sókn Fjölnis, Pétur Geir Markan leikur Tommy Nielsen grátt hægra megin og brunar inní vítateiginn. Rennir boltanum út en þar ná FH-ingar að bjarga í horn á síðustu stundu.
101. Fín sókn Fjölnismanna og sending fyrir frá hægri. FH-ingar skalla frá, Gunnar Már Guðmundsson reynir viðstöðulaust skot af um 25 m færi en hátt yfir mark Hafnfirðinga.
98. Besta færi FH í langan tíma. Matthías Vilhjálmsson með sendingu í gegnum miðja vörn Fjölnis á Matthías Guðmundsson sem kemst inní vítateiginn en skýtur með vinstri og hátt yfir markið.
97. Skipting hjá Fjölni. Ómar Hákonarson fer af velli og Halldór Freyr Ásgrímsson kemur í hans stað.
97. Sigurvin Ólafsson með fast skot að marki Fjölnis en rétt framhjá stönginni vinstra megin.
96. FH fær aukaspyrnu á vænlegum stað, um 2 metra utan vítateigs, aðeins til vinstri. Sigurvin Ólafsson á skot í varnarvegginn, fær svo boltann aftur inní vítateig en Fjölnismenn bjarga.
94. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson reynir skot að marki Fjölnis af tæplega 30 m færi en yfir markið.
93. Ásgeir Aron Ásgeirsson þrumar að marki FH úr aukaspyrnu af rúmlega 25 m færi, með jörðu en framhjá stönginni vinstra megin.
92. Framlengingin er hafin, 2x15 mínútur.
Áhorfendur á Laugardalsvelli í dag eru 3.739.
90+3 Venjulegum leiktíma lokið og leikurinn verður framlengdur. Hetjuleg framganga Fjölnismanna sem hafa verið sterkari á löngum köflum í síðari hálfleik.
89. Skipting hjá Fjölni. Davíð Þór Rúnarsson fer af velli og Ólafur Páll Johnson kemur í hans stað.
87. Skipting hjá FH. Arnar Gunnlaugsson fer af velli og Matthías Vilhjálmsson kemur í hans stað.
85. 1:1. Dæmd vítaspyrna á FH þegar Sverrir Garðarsson brýtur á Davíð Rúnarssyni. Gunnar Már Guðmundsson tekur spyrnuna og jafnar af miklu öryggi, 1:1.
83. Skipting hjá Fjölni. Tómas Leifsson fer af velli og Sigmundur Pétur Ástþórsson kemur í hans stað.
79. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson með skot rétt utan vítateigs, í varnarmann Fjölnis og í horn. Þung pressa eftir hornspyrnuna, Tryggvi Guðmundsson kemst að lokum í dauðafæri en er dæmdur rangstæður.
74. Sannkallað dauðafæri FH-inga. Tryggvi Guðmundsson er snöggur að taka aukaspyrnu á vinstri kanti, vörn Fjölnis er ekki með á nótunum og Arnar Gunnlaugsson fær boltann aleinn innvið markteig en þrumar viðstöðulaust yfir markið!
68. Skipting hjá FH. Bjarki Gunnlaugsson fer af velli og Sigurvin Ólafsson kemur í hans stað.
64. Fínt færi Fjölnismanna. Davíð Rúnarsson brunar inní vítateiginn hægra megin og sendir fasta sendingu inní markteiginn þar sem Ómar Hákonarson kom á ferðinni en skaut yfir mark FH. Fjölnismenn komust aftur í hættulega sókn í kjölfarið, Magnús Ingi Einarsson sendi boltann fyrir frá vinstri en Daði Lárusson markvörður náðði að góma hann efti rsmá vandræði.
57. Hröð og fín sókn FH-inga, Guðmundur Sævarsson sendir boltann inní vítateig Fjölnis, vinstra megin, á Tryggva Guðmundsson, sem skallar framhjá markinu.
55. Ásgeir Aron Ásgeirsson hjá Fjölni fær gula spjaldið fyrir að brjóta á Arnari Gunnlaugssyni.
52. Þung pressa Fjölnismanna og tvær hornspyrnur í röð en FH-ingar ná að verjast með naumindum.
51. Davíð Þór Rúnarsson með ágætt skot að marki FH af 18 m færi en rétt framhjá stönginni vinstra megin.
47. Síðari hálfleikur er kominn af stað og Fjölnismenn hafa byrjað betur.
Það er staðfest að Matthías Guðmundsson skoraði mark FH á 17. mínútu en ekki um sjálfsmark að ræða.
45+1 Fjölnir fær aukaspyrnu um 25 m frá marki. Ásgeir Aron Ásgeirsson skýtur í varnarvegginn og Egill Már Markússon flautar til hálfleiks. FH með verðskuldaða forystu, 1:0.
41. Pétur Georg Markan fellur í vítateig FH eftir návígi við Tommy Nielsen. Fjölnismenn vilja vítaspyrnu en Egill Már er vel staðsettur og lætur leikinn halda áfram.
37. Tryggvi Guðmundsson með aukaspyrnu á hættulegum stað, um 20 m frá marki. Hann skýtur í varnarvegginn og í horn.
31. Dauðafæri FH-inga. Matthías Guðmundsson kemst einu sinni sem oftar inní vítateiginn hægra megin og rennir boltanum inní átt að marklínu þar sem Ásgeir Aron Ásgeirsson bjargar á síðustu stundu. Boltinn berst útúr teignum, sendur fyrir á ný þar sem Tryggvi Guðmundsson skallar en rétt framhjá.
27. Hætta við mark FH eftir aukaspyrnu Ragnars Heimis frá miðjuhringnum. Daði Lárusson kemur út í teiginn og slær boltann frá, Fjölnismenn ná að skalla en hættulaust og framhjá.
24. Ragnar Heimir Gunnarsson, miðvörður Fjölnis, reynir skot úr aukaspyrnu af 25 m færi en rétt yfir mark FH-inga.
21. Ásgeir Gunnar Ásgeirsson reynir skot að marki Fjölnis af 25 m færi en boltinn fer yfir.
21. Arnar Gunnlaugsson fær sendingu inní vítateig Fjölnis vinstra megin, frá Frey Bjarnasyni. Hann á fast skot en beint á Þórð markvörð.
19. Fyrsta marktilraun Fjölnis. Tómas Leifsson tekur hornspyrnu frá vinstri og Pétur Georg Markan skallar framhjá marki FH.
17. 1:0, líklega sjálfsmark Gunnars Vals Gunnarssonar. Tryggvi Guðmundsson fékk frábæra sendingu frá Davíð Þór Viðarssyni inní vítateiginn vinstra megin og renndi boltanum þvert í gegnum markteiginn þar sem Matthías Guðmundsson og Gunnar Valur, bakvörður Fjölnis komu á ferðinni og boltinn fór af þeim í netið. Vallarþulur tilkynnir að Matthías hafi skorað.
14. Tryggvi tekur stutta hornspyrnu, fær boltann aftur og leikur innað vítateigslínu. Þrumuskot þaðan, beint á Þórð, sem heldur ekki boltanum en varnarmenn ná að bjarga.
12. Dauðafæri FH-inga. Matthías Guðmundsson brunar upp hægra megin eftir laglega sendingu Bjarka Gunnlaugssonar og sendir boltann fyrir markið. Á markteig er Ásgeir Gunnar Ásgeirsson mættur en skallar yfir mark Fjölnis.
8. Tryggvi Guðmundsson með þrumuskot að marki Fjölnis úr aukaspyrnu af 25 m færi. Boltinn stefnir í markhornið hægra megin en Þórður ver vel og slær hann í horn.
7. Fyrsta hættan í leiknum, Matthías Guðmundsson fær sendingu innfyrir vörn Fjölnis en Þórður Ingason markvörður gómar boltann örugglega.
14:01. Leikurinn er hafinn. Það er sól en kalt í Laugardalnum, létt gola. FH leikur í átt að Laugardalshöllinni, Fjölnir í átt að Laugum.
13:54. Liðin ganga inná völlinn. Egill Már Markússon í fararbroddi en þetta er kveðjuleikur hans í dómgæslunni eftir 18 ára feril í efstu deild.
13:40. Framherjinn Davíð Þór Rúnarsson getur byrjað leikinn með Fjölni, hann komst klakklaust í gegnum upphitunina. Gott fyrir Grafarvogspilta en eins og alþjóð veit mega markahæsti maður þeirra, Atli Viðar Björnsson, og miðjumaðurinn Heimir Snær Guðmundsson ekki spila með í dag þar sem þeir eru samningsbundnir FH og fengu ekki leyfi frá Hafnarfjarðarfélaginu.
13:26. FH-ingar eru komnir í úrslit bikarkeppninnar í fjórða sinn en þeir hafa aldrei unnið til þessa. Árið 1972 töpuðu þeir 0:2 fyrir ÍBV, árið 1991 töpuðu þeir 0:1 fyrir Val eftir 1:1 jafntefli til að byrja með, og árið 2003 töpuðu FH-ingar 0:1 fyrir ÍA.
13:19. Byrjunarliðin eru tilbúin. Óvissa þó hjá Fjölnismönnum, Davíð Rúnarsson er tæpur vegna meiðsla og kemur í ljós í upphitun hvort hann verður klár í leikinn. Ef ekki, kemur Sigmundur P. Ástþórsson í byrjunarliðið í hans stað.
Lið FH: Daði Lárusson, Guðmundur Sævarsson, Sverrir Garðarsson, Tommy Nielsen, Freyr Bjarnason, Ásgeir Gunnar Ásgeirsson, Davíð Þór Viðarsson, Bjarki Gunnlaugsson, Matthías Guðmundsson, Arnar Gunnlaugsson, Tryggvi Guðmundsson.
Varamenn: Auðun Helgason, Dennis Siim, Sigurvin Ólafsson, Matthías Vilhjálmsson, Atli Guðnason, Hjörtur Logi Valgarðsson, Skarphéðinn Magnússon.
Lið Fjölnis: Þórður Ingason, Gunnar Valur Gunnarsson, Ásgeir Aron Ásgeirsson, Ragnar H. Gunnarsson, Magnús Ingi Einarsson, Tómas Leifsson, Ómar Hákonarson, Illugi Þór Gunnarsson, Gunnar Már Guðmundsson, Pétur Georg Markan, Davíð Þór Rúnarsson.
Varamenn: Steinar Örn Gunnarsson, Halldór Freyr Ásgrímsson, Haukur Lárusson, Ólafur Páll Johnson, Sigmundur Pétur Ástþórsson, Einar Markús Einarsson, Kristinn Freyr Sigurðsson.
13:15. Stuðningsmenn Fjölnis eru mun meira áberandi enn sem komið er og hvetja sína menn í upphituninni af miklum móð. Gulu litirnir eru mjög áberandi í kringum Laugardalsvöllinn þessa stundina. Enda er Grafarvogsfélagið unga komið í sinn stærsta leik í sögunni.