Íslendingaliðið Brann er komið með níu fingur á norska meistaratitilinn í knattspyrnu eftir 3:1 sigur á Lyn í lokaleik 23. umferðar sem fram fór í Bergen í kvöld. Þegar þrjár umferðir eru eftir hefur Brann 9 stiga forskot á Stabæk og fátt sem getur komið í veg fyrir að Brann verði meistari í fyrsta sinn í 44 ár.
Azar Karadas var hetja Brann en hann skoraði tvö mörk á lokamínútum leiksins eftir að Lyn hafði jafnað metin í 1:1 á 86. mínútu leiksins.
Ólafur Örn Bjarnason og Kristján Örn Sigurðsson léku báðir allan tímann í vörn Brann en Ármann Smári Björnsson sat á bekknum allan tímann.